Trúnaður myndaðist aldrei

Hjörleifur Kvaran, fráfarandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir aldrei hafa myndast …
Hjörleifur Kvaran, fráfarandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir aldrei hafa myndast trúnaður á milli hans og hins nýja stjórnarformanns, Haraldar Flosa Tryggvasonar.

„Hann kallaði mig inn á sinn fund í gær og tilkynnti mér að ég nyti ekki trúnaðar stjórnarinnar. Því væri nauðsynlegt að ég viki úr starfi," segir Hjörleifur Kvaran, fráfarandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Haraldur Flosi Tryggvason, starfandi stjórnarformaður OR, sagði honum upp störfum í gær og óskaði eftir því að hann léti strax af störfum.

Hjörleifur segir að ekki hafi verið tilgreint sérstaklega hvers vegna lægi á því að hann hætti störfum strax. Aðspurður hvort trúnaðarbrestur hafi orðið á milli hans og stjórnarformannsins segir Hjörleifur: „Að mínu mati hefur ekki orðið neinn trúnaðarbrestur því það þarf að vera til staðar trúnaður til þess að hann geti brostið."

Vel hafi gengið að vinna með sex síðustu stjórnarformönnum Orkuveitunnar, en aldrei hafi myndast gott samband á milli hans og Haraldar Flosa. „Hverju þar er um að kenna kann ég ekki að segja," segir Hjörleifur.

Ekki ánægður með úttektina

26. júlí skilaði Hjörleifur inn úttekt á stöðu Orkuveitunnar í heild sinni, að beiðni Haraldar Flosa. Hann kveðst hafa fengið nokkuð knappan tíma til að gera úttektina og unnið að henni nótt og dag í samstarfi við alla framkvæmdastjóra Orkuveitunnar og fleiri starfsmenn. Með úttektinni hafi fylgt tillögur að því hvernig mætti bæta fjárhagsstöðu fyrirtækisins á næstu árum.

„Ég held að hann hafi hvorki verið ánægður með úttektina né tillögurnar," segir Hjörleifur um viðbrögð Haraldar Flosa. Tillögurnar hafi byggt á hóflegum gjaldskrárhækkunum og sparnaðaraðgerðum sem bitnuðu ekki of illa á starfsfólki. Nú hafi stjórnin fengið þessar tillögur í hendur og ætli svo að móta sínar eigin. Þá muni koma í ljós sá munur sem hafi verið á áherslum Haraldar og sínum.

Enginn sá þetta fyrir

Hjörleifur hafði vonast til þess að menn myndu standa saman í gegnum næstu mánuði, sem hann segir mjög krítíska fyrir OR. Fyrirtækið sé í mjög erfiðri stöðu. En ber Hjörleifur ekki ábyrgð á þeirri stöðu?

„Ég get ómögulega tekið það á mig að ég beri ábyrgð á því efnahagshruni sem hér hefur orðið. Flestar þær ákvarðanir sem við erum að vinna eftir, um virkjanir og stórframkvæmdir sem er verið að framkvæma, voru teknar löngu fyrir þá tíð þegar ég settist í forstjórastólinn. Ég var ráðinn forstjóri Orkuveitunnar 19. september 2008. Ef ég hefði séð hrunið fyrir sem varð í október og það sem því fylgdi, hálfum mánuði eftir að ég var ráðinn, þá hefði ég aldrei tekið við þessu starfi. Það bara sá þetta enginn fyrir, hvorki við né aðrir."

Hann segir að á vikunum fyrir hrun hafi stjórnendur OR verið að gera góða lánasamninga til að tryggja framkvæmdafé til að standa undir þeim ákvörðunum sem þegar höfðu verið teknar.

„En þegar hrunið skall á drógu allir erlendu bankarnir lánin nánast til baka. Eitt lánið tók 14 mánuði eftir hrun að ná út. Ég get ómögulega tekið á mig ábyrgð á því," segir Hjörleifur.

Helgi Þór Ingason verkfræðingur og dósent hefur verið settur tímabundið í starf forstjóra og tekið fram að hann verði ekki ráðinn til framtíðar. Hjörleifur segir það ekki traust fyrir Orkuveituna að fá bráðabirgðastjórnanda á þessum tímapunkti. „Það sem þarf núna er styrk stjórn og öflugur forstjóri, en ekki bráðabirgðalausnir."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert