„Vissi að það kæmi eitthvað“

Börn og barnabörn hafa boðist til að aðstoða Hnikarr við …
Börn og barnabörn hafa boðist til að aðstoða Hnikarr við að ala kalkúnana. Hér er hann að huga að fuglunum með Ingólfi Má Þorkelssyni, stjúpsyni sínum. mbl.is/Eggert

„Ég vissi alveg að það kæmi eitthvað en vissi bara ekki hvað og brá því ekki mikið,“ segir Hnikarr Antonsson vélvirki sem fékk heldur óvenjulega gjöf á fimmtugsafmælinu, tvo lifandi kalkúna. Þeim fylgdu hálsólar svo þau hjónin gætu farið með þá út að ganga.

Það eru sérstakar hefðir í veiðiklúbbnum Síungir silungar sem haldið hefur saman í áratugi. Þegar einhver félaginn á stórafmæli má hann búast við því að fá lifandi gjöf. „Ég hef tekið þátt í því að gefa gullfisk, regnbogasilung, önd og hana og gat átt von á einhverju frá þeim. Ég er mjög ánægður með þetta,“ segir afmælisbarnið.

Veit ekki hvað nágrannarnir segja

Eitthvað snúnara getur orðið fyrir Hnikarr að halda þessi dýr en gullfiska eða önnur gæludýr sem félagar hans hafa fengið. „Þótt börnin og barnabörnin séu spennt fyrir þessu veit ég ekki hvernig ég á að fara að því að ala þetta í miðju Breiðholtinu þar sem stutt er á milli húsa. Ég veit ekki hvað nágrannarnir myndu segja ef ég setti þá út í garð.“

Raunar hafa tveir frændur Hnikars gefið sig fram og boðið fram aðstoð sína ef hann lendir í vandræðum með dýrin. Hnikarr telur að þeir eigi einhvern þátt í þessu framtaki.

Kalkúnarnir eru þriggja vikna og voru afhentir í búri. Afmælisbarnið kom þeim fyrir úti á svölum í upphafi en þar var of kalt svo þeir fengu aðstöðu í bílskúrnum.

Ætlast er til að þau hjónin fari út að ganga með kalkúnana því með þeim fylgdi hálsól og raunar stór trefill sem nota má til að halda á þeim hita í gönguferðum. Hnikarr er mikill KR-ingur og var trefillinn í réttu litunum. Þá fylgdu með plötur með tónlist til að halda fuglunum rólegum, vitaskuld með Hallbirni Hjartarsyni og telur Hnikarr að það tengist reglulegum veiðiferðum þeirra félaga á Skaga en þá hefur gjarnan verið komið við í Kántrýbæ.

Hnikarr varð fimmtugur síðastliðinn miðvikudag en hélt upp á tímamótin í dag. Hann er á leiðinni niður í miðbæ. „Flugeldasýningin og menningaratburðirnir eru auðvitað haldnir í tilefni af mínu afmæli, eins og venjulega,“ segir hann.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert