Fréttaskýring: Skoða verð sem OR tekur fyrir raforkudreifingu

Orkuveita Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Orkustofnun ætlar að fara yfir útreikninga á kostnaði Orkuveitu Reykjavíkur við dreifingu raforku. Guðni Jóhannesson orkumálastjóri leggur áherslu á að fyrirtækið megi ekki nota tekjur af raforkudreifingu til að kosta aðra þætti í starfsemi fyrirtækisins. Um 4% af skuldum Orkuveitunnar eru til komnar vegna raforkudreifingar.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur ákveðið að hækka verð fyrir raforkudreifingu um 40%, en verð á rafmagni hækkar um 11%. Engin samkeppni er í dreifingu á rafmagni og því þurfa orkufyrirtækin að fylgja reglum Orkustofnunar um verðlagningu.

„Orkustofnun ákveður tekjumörk fyrir dreifingu á raforku. Þeir sem dreifa geta skipulagt gjaldskrá innan þessara tekjumarka eftir sérstökum reglum. Það er alveg rétt að Orkuveitan hefur á síðasta ári verið vel undir þessum tekjumörkum og það virðist vera að fyrirtækið hafi haft svigrúm til hækkana. Í ljósi þessara hækkana núna erum við að skoða þetta upp á nýtt. Þetta er hlutur sem breytist með breyttum forsendum á hverjum tíma og við munum því fara vel yfir þetta í þessari viku,“ segir Guðni.

Þar sem engin samkeppni er í dreifingu á rafmagni mega orkufyrirtækin ekki nota tekjur af dreifingu til að niðurgreiða aðra starfsemi.

„Raforkudreifing er einokunarstarfsemi og það má ekki nota peninga sem kom inn vegna hennar með hvaða hætti sem er. Það má t.d. ekki nota tekjur af dreifingu til að borga fráveitur. Fyrirtækið má ekki nota tekjur af dreifingu til annars en að borga kostnað af dreifingu,“ segir Guðni.

Orkuveitan skuldar mikið, en Guðni sagði að tekjur af raforkudreifingu mættu einvörðungu fara í að borga skuldir sem eru til komnar vegna uppbyggingar raforkudreifikerfisins.

Guðni tekur fram að Orkustofnun hafi ekki ástæðu til að ætla að OR fylgi ekki reglum um meðferð tekna af raforkudreifingu, en það þurfi að fylgjast með þessu. „Það eru þarna girðingar sem Orkuveitan má ekki stökkva yfir.“

Guðni segir það ekki rétta framsetningu að Orkustofnun hafi þrýst á OR að hækka gjaldskrá fyrir dreifingu rafmagns. „Það er ekkert sáluhjálparatriði að orkufyrirtækin fari upp að þessum mörkum sem við setjum. Þetta er hámarkstaxti sem við setjum.“

Skulda 9,4 milljarða vegna orkudreifingar

Í fréttatilkynningu sem Orkuveitan sendi frá sér á föstudaginn eru gefnar upp tölur um hvernig skuldir fyrirtækisins eru til komnar. Tæplega 38% skuldanna eru vegna fjárfestinga í virkjunum til stóriðju, 11% er vegna virkjunar rafmagns sem selt er í smásölu til heimila og fyrirtækja, en um 4% skuldanna eru vegna dreifingar á rafmagni. Skuldir vegna dreifingar á raforku eru um 9,4 milljarðar. Til samanburðar má nefnda að skuldir vegna Gagnaveitunnar eru 7 milljarðar.

Samkvæmt raforkulögum ber orkufyrirtækjum að tilkynna Orkustofnun breytingar á gjaldskrá tveimur mánuðum áður en breytingar eiga að taka gildi. Stofnunin þarf að fara yfir forsendur hækkunar og því er ekki víst að hækkanirnar taki gildi 1. október eins og áformað var.

Dýrt að leggja hitaveituna

Orkuveita Reykjavíkur hefur ráðist í talsverðar fjárfestingar við að virkja jarðhita á Berserkseyri á Snæfellsnesi með það að markmiði að leggja hitaveitu í Grundarfirði. Þessi áform hafa verið lögð til hliðar og stjórn fyrirtækisins hefur ákveðið að reyna að selja jörðina. Ólíklegt er að OR geti selt jörðina fyrir kostnaði.

Orkuveitan keypti jarðirnar Berserkseyri og Ytri-Berserkseyri árið 2006 á 125 milljónir. Árið eftir var risabor Jarðborana, Sleipnir, fluttur þangað og hóf hann að bora eftir heitu vatni. Heitt vatn fannst á svæðinu, en það reyndist mjög kolsýruríkt sem skapar vandamál við nýtingu. Framkvæmdir voru stöðvaðar fyrir tveimur árum, m.a. vegna þess að vafi þótti leika á því að hagkvæmt væri að leggja hitaveitu í Grundarfjörð.

Orkuveitan rekur vatnsveitu í Grundarfirði, en áformum um að leggja hitaveitu um bæinn hefur hins vegar ekki verið hrundið í framkvæmd.

Óvíst er hversu mikið Orkuveitan getur fengið fyrir jörðina. Lög um jarðhitaauðlindir þrengja möguleika fyrirtækisins til að selja jörðina og það sem henni tilheyrir, því að orkufyrirtæki mega ekki selja jarðhitaréttindi til einkaaðila.

Áfall fyrir iðnaðinn í landinu

Skoða þarf skipulag raforkumarkaðarins Nýkynntar hækkanir á orkuverði eru áfall fyrir iðnað í landinu, segir Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Gjald fyrir raforkudreifingu hækkar um 40%, rafmagnsverð um 11% auk þess sem verð á heitu vatni hækkar um 35%.

„Margar iðngreinar eru orkufrekar og því er þessi hækkun nú sem reiðarslag fyrir fjölda fyrirtækja. Ekkert svigrúm er fyrir þau til að taka á sig þessar hækkanir og geta þau lítið annað gert en að velta þeim út í verðlagið. Hækkunin kemur á versta tíma, nú þegar við vorum að vonast til að einhver bati sé að koma fram í hagkerfinu. Þetta hægir verulega á hjöðnun verðbólgunnar og verður líklega helsti drifkraftur hennar á næstunni.“

Bjarni segir þessar hækkanir leiða hugann að skiplagi raforkumarkaðarins og hvernig til hefur tekist við innleiðingu nýlegra raforkulaga. „Okkar athuganir gefa til kynna að sérleyfishluti raforkumarkaðarins hafi hækkað talsvert meira í verði síðustu misserin umfram samkeppnishlutann. Nýkynntar hækkanir munu enn auka á þann mun. Í mínum huga er þetta undarlegt og í mótsögn við áform og markmið raforkulaganna,“ segir Bjarni Már.

Hækkunin er mikið áfall

„Þetta er gríðarlegt áfall,“ segir Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda, um hækkun á verði rafmagns frá OR.

„Um 55% af kostnaði við rafmagn er flutningskostnaður og 40% hækkun á þeim hluta hefur mikil áhrif.“

Allmargir garðyrkjubændur kaupa rafmagn af Orkuveitunni, en Bjarni bendir líka á að Rarik hafi á síðustu tveimur árum hækkað mikið verð á raforkudreifingu. Hann segir að þessi kostnaður hljóti með einum eða öðrum hætti að lenda á neytendum í formi hækkaðs verð á vörum og einnig hafi þetta áhrif á skuldir heimila og fyrirtækja sem eru verðtryggðar. egol@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert