Bæjarstjórn í bobba - uppselt í Herjólf

Herjólfur í Landeyjahöfn.
Herjólfur í Landeyjahöfn. mbl.is/Hjalti Geir

Fulltrúar Vestmannaeyjabæjar ætluðu að mæta á fund með eftirlitsnefnd sveitarfélaga í dag klukkan 13:15 en óvíst er hvort þeir komast á fundinn þar sem uppselt er í allar ferðir Herjólfs í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, vonast þeir samt til þess að komast á fundinn og standa í biðröð við skipið þar til færi gefst.

Í gær sendi bæjarstjórnin frá sér yfirlýsingu vegna þess að eftirlitsnefndin sagði Vestmannaeyjar glíma við fjárhagsvanda.

„Að gefnu tilefni vill Vestmannaeyjabær því taka af öll tvímæli um það að bærinn á ekki við neinn fjárhagsvanda að stríða og þarf ekki að grípa til neinna ráðstafanna til að rétta við rekstur sinn,“ segir í tilkynningu frá bæjarstjórn Vestmannaeyja.

Tilkynningunni, sem Sigurbergur Ármannsson, fjármálastjóri Vestmannaeyjabæjar, og Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, skrifa undir er ætlað að svara fréttum um erfiða stöðu bæjarsjóðs en þar hafna þeir þeirri niðurstöðu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga að bærinn eigi við skuldavanda að etja.

„Hin meinta skuldbinding kemur því aldrei til með að hafa áhrif á rekstur Vestmannaeyjabæjar,“ segir í bréfinu með vísan til hagnaðar af rekstri bæjarsjóðs og samsetninga langtímaskulda bæjarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert