Erfitt að spá um gengið

Ólafur Ísleifsson, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, telur nær útilokað að spá fyrir um gengi krónunnar fram að áramótum. Ólafur bendir á að gengi gjaldmiðilsins, sem sé í „öndunarvél gjaldeyrishafta“, fylgi ekki markaðsaðstæðum eins og fljótandi gjaldmiðlar. 

Gengi krónunnar styrktist um rúmt 1% í dag á millibankamarkaði með gjaldeyri og um 0,7% í gær. Frá áramótum hefur krónan hækkað um rúm 11%.

Aðspurður um þjóðhagsleg áhrif gengisstyrkingarinnar segir Ólafur að höfuðstóll erlendra lána lækki. Þá eigi innfluttar vörur að lækka í verði sem ætti að leiða til kaupmáttaraukningar hjá almenningi.

Á hinn bóginn fái innflytjendur minna fyrir vörur sínar að óbreyttu.

„Gengi krónunnar hefur verið mjög lágt á sögulegan og efnahagslegan mælikvarða. Það dylst engum hugur um það að hvaða gengi sem er norðan við 200 í vísitölu, svo við nefnum það sem grófa viðmiðun, er náttúrulega mjög lágt gengi á krónunni í sögulegu samhengi og í ljósi þeirra raungengismælikvarða sem helst eru lagðir til grundvallar.“

Óvenjulegar aðstæður 

- Telurðu svigrúm til frekari styrkingar á krónunni?

„Ég er í fyrsta lagi ekki viss um að gengi krónunnar sé markaðsákvarðað. Gengið ræðst að einhverju leyti af stjórnvaldsákvörðunum. Að minnsta kosti eru aðilar á þessum markaði fáir og viðskipti iðulega afar lítil.“

Ólafur leggur áherslu á óvenjulegar aðstæður í gengisskráningunni.

„Krónan er ekki venjulegur gjaldmiðill. Hún er í öndunarvél gjaldeyrishafta þannig að það er þýðingarlaust að ræða um verðmyndun á henni eins og ef um fljótandi gjaldmiðil væri að ræða með virkri verðmyndun.“

Þrír meginþættir

- Að því gefnu að gjaldmiðillinn sé í öndunarvél. Telurðu að gengið geti styrkst frekar?

„Já, það er hugsanlegt. Það gildi sem vísitalan tekur er ef til vill niðurstaðan af þremur meginþáttum. Viðskipti með krónuna á markaði hafa ákveðna þýðingu en að öðru leyti sýnist skráning krónunnar að umtalsverðu leyti vera stjórnvaldsaðgerð.

Gjaldeyrishöftin gera að verkum að ekki er hægt að bera verðmyndun krónunnar eins og hún birtist í vísitölunni eða í daglegu gengi saman við gengi  á gjaldmiðlum sem ákvarðast á virkum og óheftum gjaldeyrismarkaði.

Fyrir það er ekki að synja að ótímabært afnám gjaldeyrishafta gæti leitt af sér umtalsvert fall á gengi krónunnar,“ segir Ólafur Ísleifsson hagfræðingur.

Ólafur Ísleifsson hagfræðingur.
Ólafur Ísleifsson hagfræðingur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert