Segja rangt að 70 séu í sendinefnd

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands,
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Embætti forseta Íslands hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að rangt sé farið með í frétt Morgunblaðinu í dag varðandi fjölda í sendinefnd forsetans í Sjanghæ. Þess má geta að á vefsiðu framlags Íslands á heimssýningunni, expo 2010, er notað sama orðalag um sendinefndina og gert var í Morgunblaðinu.

Tilkynningin frá embætti forseta Íslands:

„Í frétt Morgunblaðsins í dag, fimmtudaginn 9. september, segir í fyrirsögn: "Um 70 manns í sendinefnd forsetans í Sjanghæ". Þessi fullyrðing er síðan endurtekin í fréttinni.

Þetta er rangt; það eru ekki 70 manns í sendinefnd forseta. Af hálfu embættis forseta Íslands er aðeins Árni Sigurjónsson skrifstofustjóri embættisins í fylgd forsetahjóna auk þess sem Kristín A. Árnadóttir sendiherra Íslands í Kína og starfsfólk sendiráðsins hafa verið með forseta í dagskrá hans. Hins vegar eru nú staddir í Kína fjölmargir Íslendingar, m.a. í tengslum við dagskrá þjóðardags Íslands á heimssýningunni í Sjanghæ eða vegna atburða sem þeir hafa sjálfir skipulagt og eru á þeirra eigin vegum; þeir eru í Kína á vegum stofnana, fyrirtækja og samtaka á Íslandi en ekki embættis forseta Íslands."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert