Kojur brátt í notkun á ný

Herjólfur í Landeyjahöfn.
Herjólfur í Landeyjahöfn. mbl.is/Hjalti Geir

Vonast er til að gefið verði út nýtt haffærnisskýrteini fyrir Herjólf í dag eða á morgun þannig að hægt verði að taka í notkun kojur og klefa í siglingum skipsins milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Þetta hefur blaðið Fréttir í Vestmannaeyjum eftir Guðmundi Petersen, rekstrarstjóra Herjólfs hjá Eimskip.

Nýtt haffærnisskýrteini var gefið út fyrir Herjólf eftir að hann fór að sigla í Landeyjahöfn en fækkað var í áhöfn skipsins og hætt að nota kojur.

Fréttir segja, að mikil óánægja sé meðal farþega sem ferð­ast með skipinu til Þorlákshafnar vegna þess að klefar eru ekki opnir meðan á nærri þriggja tíma siglingu stendur.

„Ég skil það vel því fólk getur orðið sjóveikt en við erum að vinna í þessu. Þegar þessi staða sem við erum í kom upp var í fyrstu talið að það tæki tvo til þrjá daga að dæla upp úr Landeyjahöfn og svo kom í ljós að þetta var miklu meira magn en í fyrstu var talið. Við vonumst til að fá nýtt skírteini í dag eða á morgun,“ sagði Guðmundur við Fréttir og telur mikilvægt að leyfi fyrir kojum sé til staðar í skipinu þegar siglt er í Þorlákshöfn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert