Minkaskinn frá Íslandi aldrei dýrari

Minkaskinn frá Íslandi þykja með þeim bestu í heimi. Því …
Minkaskinn frá Íslandi þykja með þeim bestu í heimi. Því má þakka vel heppnaðri ræktun. mbl.is/Ómar

Góð sala hefur verið á minkaskinnum frá Íslandi á yfirstandandi uppboði Kopenhagen fur í Danmörku. Verð hafa náð nýjum hæðum en íslensk skinn hafa selst hæst á 540 danskar krónur stykkið. Allt stefnir í að útflutningsverðmæti minkaskinna frá Íslandi verði rúmur milljarður á þessu ári.

Hvert sölutímabil samanstendur af 5 uppboðum og er uppboðið nú það síðasta á tímabilinu 2009-2010.

„Við sjáum nú verð á íslenskum skinnum sem við höfum aldrei nokkurn tíma séð en einstaka skinn er að fara yfir 500 krónur danskar,“ segir Einar E. Einarsson, loðdýraráðunautur. Það stefni í að meðalverðið verði um 310 til 320 danskar krónur.

„Minkaskinn eru flokkuð og seld eftir gæðum og stærð. Miklar framfarir hafa orðið í framleiðslunni hér en Ísland er nú í 3. sæti yfir lönd sem framleiða verðmætustu skinnin. Danir trjóna á toppnum og þeim næst koma Norðmenn en alls eru minkaskinn framleidd í á fjórða tug landa.“

Einar segir að um 500 kaupendur séu á uppboðinu þar af um helmingur frá Asíu.

Uppboðið hófst á föstudaginn en um 4,7 milljónir minkaskinna eru þar til sölu auk annar konar skinna.

Aðeins fjögur í uppboðshús í heiminum selja minkaskinn. Fyrir utan þetta í Danmörku eru uppboðshús í Finnlandi, Kanada og í Bandaríkjunum. Einar segir að allir íslenskir loðdýrabændur selji sína framleiðslu hjá Kopenhagen fur í Danmörku, það hafi einfaldlega reynst best en þeim sé að sjálfsögðu heimilt að stunda viðskipti í hinum uppboðshúsunum.

Á Íslandi starfa 22 loðdýrabú sem framleiða minkaskinn. Einar segir að flest búin séu í kringum Selfoss og í Skagafirði. Einar segir að Ísland henti vel til loðdýraræktar, hér sé nægt hráefni og ræktunin hagkvæm.

Heimasíðu Kopenhagen fur má sjá hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert