Fordæmislaus læknaskortur

Á Landspítalanum.
Á Landspítalanum. Ómar Óskarsson

„Læknum í Læknafélagi Íslands sem eru starfandi hér á landi hefur frá byrjun kreppunnar fækkað um um það bil 10%,“ segir Þórarinn Guðnason varaformaður Læknafélags Íslands um vaxandi læknaskort á Íslandi. Þórarinn segir stöðuna án fordæmis.

Þórarinn segir meginástæðuna þá hversu fáir læknar snúi heim. 

„Þetta skýrist að langstærstum hluta af því að mjög fáir íslenskir læknar koma heim eftir að hafa lokið sérnámi erlendis. Þess vegna koma oft engir sérfræðingar í stað þeirra sem hætta fyrir aldurs sakir og fáir eða engir sækja um lausar stöður sem auglýstar eru.

Önnur skýring er að sérfræðilæknar sem voru fluttir heim hafa flutt út aftur. Oftast flytja þeir til þeirra landa sem þeir voru á í sínu sérnámi. Þar sem eiga læknar oftast greiðan aðgang að vinnu, enda er skortur á læknum víða á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum,“ segir Þórarinn og heldur áfram. 

„Þriðja skýringin er að ungir læknar fara fyrr út í sérnám að loknu læknaprófi og starfa því skemur hér heima en áður. Þetta er fyrst og fremst alvarlegt vegna þess að reynslan hefur sýnt okkur að læknar sem hafa starfað einhvern tíma hér heima áður en þeir fara út eru líklegri til að koma heim aftur en þeir sem ekki hafa myndað nein tengsl við heilbrigðiskerfið hér að námi loknu.“

Byrjunarlaunin um 300.000 krónur

- Af hverju fara læknar af landi brott?

„Ástæður þessa eru margþættar. Launaskerðingin hefur haft sitt að segja og ef til vill hefur hún bitið harðar á lækna því í góðærinu rýrnuðu kjör lækna talsvert miðað við margar aðrar stéttir. Byrjunarlaun lækna eru 303.350 krónur eftir 6 ára háskólanám.

Þá er hópur lækna sem flutti heim á tíma þar sem húsnæðisverð var mjög hátt, tók há lán og sér leið út úr þeirri hengingaról með því að flytja út aftur og fá laun í gjaldeyri. Annað atriði er að mörgum læknum finnst þeir hafa takmarkað að segja um starfsumhverfi sitt einkum eftir að kreppan skall á. Breytingar eru gjarna settar á með valdboði að ofan og mörgum finnst lítið samráð haft við þá sem eiga að vinna verkin.

Þó aðstæður versni er samt ávallt haldið fast við kröfuna um að viðhalda áfram góðri og öruggri þjónustu. Menn hlaupa því hraðar og vinna jafnvel yfirvinnu án þess að hún sé greidd til að tryggja sjúklingunum góða þjónustu. Hættan á kulnun í starfi eykst við slíkar aðstæður, einkum þegar fólk finnur til vanmáttarkenndar og sér ekki fyrir endann á ástandinu,  það er vel þekkt staðreynd í stjórnunarfræðum.“

Skortur á sérfræðingum

- Hefur borið á því að hæft fólk fáist ekki til starfa? Ef svo, hversu margir eru þetta og í hvaða greinum læknisfræðinnar?

Þórarinn hugsar sig um og segir svo: 

„Nýlega var aulýst eftir 3 sérfræðilæknum til stafa í sérgrein þar sem 5 læknar eru starfandi á landinu vegna þess að 3 þessarra lækna eru að komast eða eru komnir á eftirlaunaaldur. Um þessar stöður sótti einn læknir og óskaði hann aðeins eftir 50% vinnu.

Það er hægt að nefna nokkur svipuð dæmi. Það er hættast við að alvarlegt ástand geti skapast fljótt í mjög sérhæfðum undirsérgreinum þar sem þarf ef til vill 10-12 ára sérnám og þjálfun eftir læknapróf. Stundum skapast ófremdarástand ef 1 eða 2 menn fara.

Svo er auðvitað hætt við að á lengri tíma skapist einnig alvarlegt ástand í stærri sérgreinum þar sem hefur verið skortur á læknum lengi. Landsbyggðin gæti líka séð fram á erfiðari tíma hvað varðar mönnun og ég held reyndar að það ástand sé þegar komið fram að nokkru leyti.“

Kallar á margþætt viðbrögð 

- Hvað ætti ríkið að gera til að sporna við þessu?

„Það þarf að bregðast við á ýmsan hátt. Gera það meira aðlaðandi að starfa hérlendis og þá á ég við bæði launakjör og annan aðbúnað og vinnuumhverfi. Menn geta litið til landsbyggðarinnar en þar hafa menn reynslu af því að manna til dæmis héruð þar sem hefur verið erfitt að fá lækna.

Hættan er hins vegar að við lendum í skammtímalausnum til dæmis með svokallaða boðhlaupslækna sem koma og eru í viku eða tvær í senn og fá þreföld laun á við þá sem þeir vinna við hliðina á. Slíku fylgja ýmis vandamál þó það leysi úr bráðavandanum.“

- Hversu alvarlegur er læknaskorturinn?

„Hann getur orðið mjög alvarlegur í ákveðnum sérgreinum mjög skyndilega og til lengri tíma í flestum greinum.“

- Hafið þið séð svona ástand áður?

„Það ástand sem nú er að skapast hefur ekki sést á sl áratugum að minnsta kosti.“

Þórarinn Guðnason hjartalæknir.
Þórarinn Guðnason hjartalæknir. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert