Hreinsað til eftir mótmælin

Kyrrt er nú orðið að mestu á Austurvelli að nýju eftir fjölmennar mótmælaaðgerðir, sem þar voru meðan á þingsetningu stóð í dag. Var eggjum, ávöxtum, mjólkurvörum og öðru lauslegu kastað í þingmenn og þinghúsið.

Talið er að á þriðja þúsund manns hafi verið á Austurvelli þegar mest var. Nú undir kvöld voru enn nokkrir tugir manna á svæðinu en byrjað er að hreinsa til eftir mótmælin.

Mikill viðbúnaður lögreglu var á Austurvelli í dag og hefur mbl.is fengið það staðfest að hátt í hundrað lögreglumenn voru þar að störfum. Þeim tókst að mestu að halda mótmælendum í skefjum og forðast átök. Lögreglan hótaði fólkinu á tímabili, þegar allt virtist vera að sjóða upp úr, og þingmenn áttu eftir að ganga úr Dómkirkju í þinghúsið, að gripið yrði til piparúða og táragass en fólk reyndi að brjóta niður varnir lögreglu. Til þess kom þó ekki.

Lögreglan þurfti og að slökkva elda, sem kveiktir voru í rusli á Austurvelli meðan á mótmælunum stóð. 

mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert