Vilja afnema aukagreiðslur til þingflokksformanna

Tveir þingmenn Samfylkingarinnar, Mörður Árnason og Valgerður Bjarnadóttir, hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um að álagsgreiðslur, sem formenn þingnefnda og þingflokka hafa notið, falli brott. 

Störf alþingismanna yrðu þannig lögð að jöfnu hvað þingfararkaup varðar, hvar og hvernig sem þau eru unnin, í samræmi við meginreglur lýðræðisskipunar.

Þingmennirnir segja, að rök að baki þessum greiðslum hafi verið nefnd þau að um sé að ræða þóknun fyrir þingstörf sem sérstakar skyldur fylgi. „Formennska í þingnefnd og þingflokki er vissulega ábyrgðarmikið starf og annasamt en ekki verði annað séð, en að jafnframt skyldum og ábyrgð felist einnig í slíku starfi einmitt þau áhrif og völd sem flestir alþingismenn sækist eftir fyrir hönd kjósenda sinna og málstaðar. Að minnsta kosti er ekki líklegt að ásókn minnki í þessi störf þótt álagsgreiðslurnar yrðu afnumdar," segir í greinargerð með frumvarpinu.

Heildarkostnaður við þessar álagsgreiðslur til um það bil sextán þingmanna nemur í kringum 15 milljónum króna á ári, „og munar um minna fyrir ríkissjóð í harðindum sem nú ganga yfir," segja þingmennirnir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert