Fréttaskýring: „Fjárlagafrumvarpið skerðir mannréttindi“

Framlög til málefna fatlaðra skerðast um hálfan milljarð, nái fjárlagafrumvarpið fram að ganga. Málaflokkurinn hafði til umráða tæplega 11,2 milljarða í ár, en er úthlutað um 10,7 milljörðum á næsta ári. Forsvarsmenn hagsmunasamtaka fatlaðra segja þetta reiðarslag. Bið eftir þjónustu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins mun lengjast.

Öryrkjabandalag Íslands sendi frá sér yfirlýsingu í gær, þar sem frumvarpinu er harðlega mótmælt. Þar segir að verið sé að skerða mannréttindi fatlaðra með fyrirhuguðum niðurskurði. Stjórnvöld eru sökuð um að skorta heildarsýn og skilning á aðstæðum öryrkja. Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands, segir að boðaður niðurskurður sé reiðarslag fyrir öryrkja, sem þegar standi höllum fæti „Það hefur þegar verið skorið svo mikið niður, þessi málaflokkur var líka sveltur í góðærinu.“

Endalaust þjarmað að öryrkjum

Ofan á þetta bætist að örorkubætur voru frystar um síðustu áramót og að sögn Lilju lítur allt út fyrir að það verði endurtekið um næstu áramót. „Bæturnar hækka ekki í samræmi við verðlag, þó lög um almannatryggingar kveði svo á um. Það er kaldhæðnislegt að þessi lög voru sett til þess að standa vörð um hag öryrkja. Það kemur okkur á óvart hvað það virðist vera hægt að halda endalaust áfram að þjarma að þessum hópi.“

Gerður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar, segir að ekki sé hægt að skera meira niður í þjónustu við fatlaða. „Í góðærinu var markviss niðurskurður í þessari þjónustu, en á sama tíma fjölgaði þeim sem þurfa á henni að halda.“ Um mánaðamótin var tilkynnt að til stæði að loka tveimur heimilum fyrir fatlaða í Reykjavík.

Í gær ákvað Svæðisskrifstofa fatlaðra þó að hætta við lokun annars þeirra þar sem býr ungt þroskahamlað fólk. „Það var öflugur foreldrahópur sem sætti sig ekki við þetta og veittu mikla mótspyrnu enda var niðurstaðan sú að þetta væri ekki skynsamlegur gjörningur og hætt var við,“ segir Gerður. Enn stendur hinsvegar til að loka sambýlinu að Mýrarási, þar sem nokkrir aldraðir einstaklingar hafi búið saman í sátt og samlyndi um nokkurt skeið. Íbúum verður komið fyrir annars staðar og líklega tvístrað en þau vita enn ekki hvar.

Gerður segir óvissuna erfiðan fyrir þennan hóp. „Þetta er fólk sem hefur búið við afar misjafnan kost um ævina og þvælst á milli stofnana. Þessi ákvörðun er tekin án nokkurs samráðs við fólkið. Verið er að leggja niður heimilið þeirra og starfsfólkinu hefur verið sagt upp. Þetta er grimmileg meðferð á fólki og siðferðilega kolrangt. Þetta er veikasti hópurinn af öllum; gamalt, þroskahamlað fólk. Þetta er engum til sóma.“

Verið er að skerða lífsgæði

Gerður segist sjá lítinn sparnað við þetta, fólkið þurfi áfram á þjónustu að halda og einhvers staðar þurfi það að búa. „Það eru sérkennilegir hlutir að gerast. Ef þessi niðurskurður verður að veruleika, þá verður það blóðugt. Það verður ekki án þess að til komi alvarleg skerðing á þjónustu.“

Var við því að búast að þessi málaflokkur myndi sleppa við niðurskurð?

„Það liggur fyrir að það er niðurskurður í samfélaginu. En við erum að tala um grunnþjónustu við fatlað fólk, hún er lífsnauðsynleg. Það má til dæmis alveg fækka háskólum án þess að menntunarstig þjóðarinnar skerðist. En með því að skera niður í þessum málaflokki erum við að skerða lífsgæði fólks svo mikið.“ Framlag til Greiningar- og ráðgjafarstofu ríksins lækkar um 6,9%.

Stefán J. Hreiðarsson, forstöðumaður stofunnar, segir að þessi upphæð hafi komið á óvart, hann hafi ekki átt von á meiri niðurskurði en 5%. Hlutverk Greiningar- og ráðgjafarstofu ríkisins er meðal annars að annast greiningu barna og ungmenna með alvarlegar þroskaraskanir, sjá um ráðgjöf og fræðslu og veita faglega aðstoð. „Auðvitað munum við aðlaga okkur að breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu.Til að koma til móts við kröfuna munum við segja upp leigusamningi á húsnæði sem við tókum á leigu vegna aukinna umsvifa. Það verður talsvert þrengra um okkur, en þetta ætti að ganga. Síðan munum við ekki ráða í stöður sem losna á næstunni.“ Þýðir það ekki lengri biðlista?

„Auðvitað eykst biðtími eftir þjónustu hjá okkur. Við þurftum að spara um 10% í ár og við þolum ekki meiri samdrátt. Ég kvíði því, ef gerð verður krafa um meiri samdrátt. Við rétt sleppum fyrir horn núna, en þetta verður erfitt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert