Listsköpun skilar gjaldeyristekjum

Iceland Airwaves 2010
Iceland Airwaves 2010

Meðal þess sem fjallað var um í Silfri Egils í dag voru ummæli Ásbjörns Óttarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í síðustu viku um að það væri tímabært að listamenn fengju sér vinnu eins og annað fólk. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, benti á þær tekjur sem listir skapa og tók tónlistarhátíðina sem dæmi en fleiri hundruð milljónir króna koma inn í landið í formi gjaldeyristekna auk þess sem á annað hundrað milljónir króna skili sér hingað með keyptum flugmiðum. 

Hingað kæmu yfir þrjú þúsund útlendir gestir og fjöldi erlendra blaðamanna til að fylgjast með hátíðinni en uppselt er á hátíðina. Ungir íslenskir listamenn færu í kjölfarið til útlanda og yrðu frægir. 

Grímur fjallaði um það sem íslenskir listamenn hafi áorkað, til að mynda hafi sagan verið skrifuð af rithöfundum, Björk Guðmundsdóttir hefði komið Íslandi á kortið með tónlist sinni og svo mætti lengi telja.

Gunnar Bragi Sveinsson, Framsóknarflokki, taldi að of mikið hafi verið gert úr orðum Ásbjörns. Gunnar segist taka undir með Ásbirni að  hann hafi velt fyrir sér hvers vegna starfslaun listamanna og heiðurslaun þeirra hafi ekki lækkað á sama tíma og skorið sé niður í heilbrigðisþjónustu. Hann sjái engan tilgang með heiðurslaunum listamanna og spurði hvers vegna ekki væru alveg eins boðið upp á heiðurslaun lækna. 

Að sögn Gunnars væri nær að styrkja unga listamenn meira en sleppa heiðurslistamannalaunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert