Gagnrýna framgöngu þingmanna eigin flokks

Þingflokkur Samfylkingarinnar á fundi
Þingflokkur Samfylkingarinnar á fundi mbl.is/Árni Sæberg

Samfylkingarfélag Fljótsdalshéraðs (SFF) lýsir megnri óánægju sinni með framgöngu þingmanna Samfylkingarinnar í atkvæðagreiðslu á Alþingi nú nýverið um hvort ákæra ætti nokkra fyrrverandi ráðherra fyrir Landsdómi eða ekki. Þettakemur fram í tilkynningu frá félaginu.

„Stjórn SFF telur að einstakir þingmenn flokksins hafi sært Samfylkinguna og stjórnmál landsins svo djúpu sári að ekki verður grætt á næstu árum. Um það er ekki bitist í yfirlýsingu þessari hvort þingmenn hefðu átt að segja JÁ eða NEI, heldur hvernig hægt er að hlaupa milli feigs og ófeigs eftir eigin geðþótta á augnabliki.

Þau vinnubrögð einstakra þingmanna að sjá ekki yfirsjónir félaga sinna, eða að telja yfirsjónir pólitískra andstæðinga stærri en liðsfélaga sinna fordæmir stjórn SFF meir en orð fá lýst. Hvernig er hægt að sjá flís í auga náungans með bjálka í sínu eigin?

Einnig skorar stjórn SFF á svokallaða Umbótanefnd Samfylkingarinnar að taka til starfa með sýnilegum hætti svo fljótt sem verða má. Því ei virðist vanþörf á. Fljótt þarf að koma í ljós hvort hægt er að plástra þau mein sem hrjá Samfylkinguna um þessar stundir.

Einnig beinir stjórn SFF því til ríkisstjórnar Íslands að hefja þegar það verk að setja niður hæla fyrir þá skjaldborg heimilana sem ætlað var.

Í ljósi umræðu undanfarna daga um niðurskurð í heilbrigðismálum tekur SFF heilshugar undir þær ályktanir sem hafa komið fram frá SSA, sveitarfélögum, fyrirtækjum og íbúum á Austurlandi vegna niðurskurðar í heilbrigðismálum á Austurlandi. Félagið krefst þess að þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar hafni þeim tillögum sem hafa komið fram og vill að tillögur um niðurskurð verði unnar í nánu samstarfi og samráði við hagsmunaðila."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert