Fossarnir hafa alltaf verið í lykilhlutverki

Unnur Birna Karlsdóttir
Unnur Birna Karlsdóttir

Fossarnir gegndu lykilhlutverki í allri umræðu um möguleika  Íslands til að  koma landinu í tölu betur megandi þjóða og gera þá fremsta meðal jafningja í þeim hópi. Þetta segir Unnur Birna Karlsdóttir sagnfræðingur sem á morgun flytur erindi á aðalfundi Sögufélagsins um náttúrusýn Íslendinga og virkjanir.

Unnur varði doktorsritgerð í sagnfræði um þetta efni hjá Háskólanum í sumar og rannsóknin kom út á bók undir titlinum „Þar sem fossarnir falla. Náttúrusýn og nýting fallvatna á Íslandi 1900-2008“. Unnur mun fjalla um einstök atriði í efni þessarar bókar á fyrirlestrinum á morgun.

„Náttúrusýn Íslendinga hefur tekið ýmsum breytingum á síðustu 100 árum og sú saga kristallast ekki hvað síst í umræðu um vatnsaflsvirkjanir, eins og rakið er í bókinni Þar sem fossarnir falla,“ segir Unnur. „Um og upp úr 1900 voru landsmenn mjög uppteknir af þeim möguleikum og umbótum sem felast mundu í rafvæðingunni. Fossarnir gegndu þar lykilhlutverki, þeir voru auðlindin sem mundi koma Íslandi í tölu betur megandi þjóða og gera þá fremsta meðal jafningja í þeim hópi, eins og framfarasinnaðir menn orðuðu það í byrjun 20. aldar um leið og þeir hvöttu til virkjana. Ísland var eins og önnur lönd fyrir um hundrað árum, á mótun nýrra tíma og tæknilegar framfarir orðnar og aðrar nýjar og betrumbættar í sjónmáli eða þá enn fólgnar í væntingum til framtíðarinnar.

Tuttugasta öldin yrði öld tækifæranna í krafti vísinda og tækni og þar gegndi náttúran lykilhlutverki. Nýting auðlinda hennar í þágu og þjónustu mannsins mundi hefja manninn upp fyrir lögmál hennar og duttlunga með hætti sem aldrei hefði verið mögulegur áður í sögu baráttu mannsins við náttúruöflin. “

„Fram! Temdu fossins gamm, / framfaraöld!“, orti t.d. Einar Benediktsson árið 1901 í hvatningu til Íslendinga um að virkja og  segir Unnur að þessar ljóðlínur  hafi verið einskonar heróp í íslenskri virkjunarstefnu allar götur síðan. „Það er aldrei endastöð í nýtingarstefnu, aldrei nóg komið, hvort sem samfélagið er fátækt og ótæknivætt eins og átti við um Ísland á frumbýlingsárum virkjanagerðar hér á landi eða ríkt með mikla yfirbyggingu eins og á við um Ísland dagsins í dag, hundrað árum síðar. Í kringum 1900 sögðu menn að Íslendingar hefðu ekki efni á að láta árnar falla óbeislaðar. Í dag er enn sagt að landsmenn hafi ekki efni á að nýta ekki afllindirnar, þ.e. fallvötn og jarðvarma. Þannig liggur orkunýtingarstefnan eins og rauður þráður í gegnum íslenska náttúrusýn alla síðustu öld og enn er ekkert lát á, aðeins töf núna á meðan beðið er eftir að mega taka meira að láni til að ráðast í virkjunarframkvæmdir.“

Unnur segir að stuðningur við virkjanir sé þannig eitt helsta einkennið á íslenskri náttúrusýn s.l. öld, og stjórnvöld hafi til þessa setið þeim megin borðs, þ.e. stuðningur við virkjanir hafi stýrt auðlindastefnu ríkisstjórna á Íslandi alla 20. öld og fyrstu ár þessarar aldar, sem skýri um leið hversu veik staða náttúruverndar hafi verið á tímabilinu. Hún hafi hingað til ekki haft valdið sín megin. Andstaða við gerð virkjana hafi hins vegar komið úr ýmsum áttum í litrófi þeirra hugmyndastefna sem hafa sett mark sitt á vestræna náttúrusýn síðustu hundrað árin og þá um leið á viðhorf Íslendinga til náttúrunnar. Hafa rökin gegn virkjunum síðustu hundrað ár sprottið upp af rótum hugmyndastefna á borð við rómantísku stefnuna, þjóðernishyggju, visthverfrar umhverfishyggju, umhverfisfemínisma, hugmyndafræði ferðamennsku og útivistarlífsstíls og náttúrusiðfræði.

„Virkjanadeilur hér á landi hafa þannig sprottið upp af ágreiningi ólíkra sjónarmiða og hagsmuna en þær snerta líka kjarnann í sjálfsmynd Íslendinga. Íslendingar tengja sjálfsmynd sína sem þjóðar og einstaklinga mjög við íslenska náttúru og vatnsaflsvirkjanir kljúfa þá ímynd nú á dögum með mjög djúpstæðum hætti þar sem sjónarmið þeirra sem vilja virkja og þeirra sem vilja að þar verði lát á eru ósamrýmanleg. Þetta vísar til atriðis sem hefur alltaf verið lykilatriði í sögu náttúruverndar, þ.e. að hún er þáttur í lýðræðislegu þjóðfélagi. Það er þess vegna ákveðinn mælikvarði á lýðræði viðkomandi samfélags hvort sjónarmið náttúruverndar hljóta hljómgrunn og það sýnt í verki með friðun náttúru gegn stórfelldri mannvirkjagerð og auðlindanýtingu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert