Skotar lýsa vonbrigðum með makrílfund

Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skotlands.
Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skotlands.

Fulltrúar skoskra úthafsveiðimanna lýsa í dag vonbrigðum með að ekki skyldi nást samkomulag um makrílkvóta fyrir næsta ár á fundi í Lundúnum í gær. Þeir fagna því hins vegar að Evrópusambandið hafi ekki látið undan því sem þeir kalla óhóflegar kröfur Íslendinga og Færeyinga.

Fram kom í gær, að fulltrúar Norðmanna og Evrópusambandsins buðu Íslendingum 3,1% af heildarkvóta næsta árs. Því höfnuðu fulltrúar Íslendinga. Á þessu ári hafa Íslendingar veitt rúmlega 17% af heildarafla úr makrílstofninum í Norðaustur-Atlantshafi.

Vefurinn fishnewseu.com hefur eftir Ian Gatt, framkvæmdastjóra sambands skoskra úthafsveiðimanna, að það séu mikil vonbrigði að ekki skyldi nást samkomulag á fundinum í gær en ekki hafi verið hægt að uppfylla væntingar Íslendinga og Færeyinga.

„Við fögnum því hins vegar, að Evrópusambandið hefur ekki látið undan óhóflegum kröfum Íslendinga og Færeyinga og afstaða þess í viðræðunum hefur verið einörð og raunhæf allan tímann," segir Gatt.

Hugsanlegt er að viðræður verði teknar upp að nýju á fundi NEAFC eftir 10 daga.   

Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra skosku heimastjórnarinnar, lýsir einnig vonbrigðum með að ekki hafi náðst samningar en segir að Evrópusambandið hafi lýst yfir vilja til samninga á raunhæfum grundvelli. Því miður beri mikið í milli Íslendinga og Færeyinga annars vegar og ESB og Norðmanna hins vegar. Reynt verði að tryggja að veiðar í makrílstofninum verði sjálfbærar á næsta ári og til standi að taka upp frekari viðræður við Íslendinga og Færeyinga eins fljótt og unnt er. 

Liam McArthur, talsmaður Frjálslyndra demókrata í sjávarútvegsmálum, segir við vefinn að það séu mikil vonbrigði að ekki hafi náðst samningar. McArthur segir mikilvægt að finna lausn og hvetur samnignamenn ESB til að setjast niður að nýju við samningaborðið með Íslendingum og Færeyingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert