Icelandair greiðir tjón aðeins að hluta

Eldgosið í Eyjafjallajökli olli miklum röskunum á flugi í Evrópu
Eldgosið í Eyjafjallajökli olli miklum röskunum á flugi í Evrópu Reuters

Flugfarþegar sem urðu fyrir töfum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli og urðu að greiða misjafnlega mikið fyrir gistingu og máltíðir á meðan töfinni stóð hafa nú aðeins fengið bætt tjón sitt að hluta frá Icelandair. Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna. 

Þar segir að í ljós hafi komið að stjórn Icelandair hefur ákveðið að bæta  að hámarki 90 evrur fyrir hverja gistinótt og 25 evrur fyrir máltíðir hvern dag.

Framvísa þarf kvittunum fyrir gistingu og máltíðum og ef útlagður kostnaður er lægri en hámarksbæturnar fær farþeginn þá upphæð endurgreidda, en ef kostnaður farþega er hærri en hámarksbætur, ber farþeginn mismuninn af tjóninu sjálfur.

 „Samkvæmt reglugerð um réttindi flugfarþega sem hér á við er aðeins kveðið á um að flugrekandi skuli bjóða farþegum máltíðir/hressingu og gistingu þegar þess er þörf ef um töf er að ræða og undir eðlilegum kringumstæðum hefur því yfirleitt verið framfylgt að hálfu flugrekenda.

 Er þá átt við að flugrekandi sjálfur skuli sjá farþegum fyrir þessari aðstoð. 

Þar sem mörg hundruð farþegar voru strandaglópar á sama tíma þegar eldgosið varð var flugfélögum almennt ofviða að sjá farþegum sínum fyrir umræddri aðstoð og urðu því farþegar sjálfir að sjá sér fyrir gistingu og máltíðum með tilheyrandi tjóni sem margir farþegar sóttu svo til flugfélagana eftirá," segir á vef Neytendasamtakanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert