Mótmæla hugmyndum um lokun skíðasvæða

Um 200 börn og unglingar voru við æfingar í Bláfjöllum …
Um 200 börn og unglingar voru við æfingar í Bláfjöllum í gærkvöldi og drógu hvergi af sér í blankalogni og fallegu veðri. mbl.is/Golli

Skíðaráð Reykjavíkur (SKRR) mótmælir harðlega hugmyndum um að loka skíðasvæðum höfuðborgarinnar og nærliggjandi sveitarfélaga í sparnaðarskyni í tvö ár.

Í yfirlýsingu frá ráðinu lýsir stjórn SKRR furðu sinni á ummælum Jóns Gnarr borgarstjóra í Kastljósi Sjónvarpsins í fyrrakvöld um mögulega lokun Bláfjallasvæðisins. 

„Stjórn SKRR lýsir furðu sinni á þessum ummælum og telur þau illa ígrunduð. Bláfjöll og önnur skíðasvæði eru almenningseign sem þúsundir gesta nýta sér á hverjum vetri. Stjórn SKRR hefur undanfarnar vikur átt fundi með fulltrúum borgarinnar þar sem rædd hafa verið áform um uppbyggingu á skíðasvæðunum og því koma orð borgarstjóra á óvart.

Undanfarin ár hefur verið í undirbúningi að hefja snjóframleiðslu á skíðasvæðunum, til að styrkja rekstrargrundvöll þeirra, auka nýtingu á mannvirkjum og fjölga skíðadögum á hverjum vetri. Skyndilega virðist snúið af þeirri leið án þess að nokkur viti af.

Eins og tölur um aðsókn sýna, þá eru skíðasvæðin fjölsótt af almenningi þegar viðrar og jafnast þau helst á við sundstaði hvað varðar aðsókn. Skíðasvæðin eru miklu frekar almenningseign en ýmis önnur íþróttamannvirki sem höfuðborgin og önnur sveitarfélög leggja íbúum til.

Stjórn SKRR skorar á borgarstjórann í Reykjavík að leggja þessar hugmyndir til hliðar,“ segir í yfirlýsingu ráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert