Níutíu þúsund krónur fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á sextugsaldri til sektargreiðslu fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu og veita ekki lögreglubifreið forgang. Maðurinn krafðist sýknu á þeirri forsendu að hann hefði ekki áttað sig fyllilega á því hvert hann ætti að fara þar sem hann hafi ekki verið kunnugur á þessum slóðum.

Maðurinn ók í júlí á síðasta ári austur Stafnesveg inn á Sandgerðisveg án þess að nema staðar við stöðvunarskyldu en með því ók hann í veg fyrir lögreglubifreið svo lá við árekstri. Á gatnamótunum nýtur umferð um Sandgerðisveg forgangs gagnvart umferð um Stafnesveg. Er það gefið til kynna með umferðarmerki sem gefur til kynna stöðvunarskyldu.

Maðurinn neitaði sök. Hann lýsti því fyrir dómi að hann hefði stöðvað bifreiðina „aðeins áður“ en hann kom að stöðvunarskyldunni. Jafnframt að hann hefði ekki áttað sig fyllilega á því hvert hann ætti að fara þegar hann kom að umræddum gatnamótum, en hann hafi ekki verið kunnugur á þessum slóðum. Hann tók jafnframt fram að engin umferð hefði verið um veginn á þessum tíma.

Ennfremur lagði maðurinn fram ljósmyndir af vettvangi sem hann sagði sýna að limgerði hafi byrgt honum sýn.

Lögð var fram myndbandsupptaka úr lögreglubifreiðinni þar sem henni er ekið eftir Sandgerðisveg. Lögreglubifreiðin sést aka yfir hraðahindrun og þegar ökumaður hennar er við það að taka beygju til vinstri á gatnamótunum, nánar tiltekið þegar bifreiðin er á miðjum gatnamótunum, ekur ákærði úr hægri átt í veg fyrir lögreglubifreiðina.

Dómurinn taldi að af gögnum málsins mætti ráða að maðurinn hefði átt að sjá lögreglubifreiðina tímanlega. Maðurinn var því dæmdur til að greiða 25 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs og tæpar 63 þúsund krónur til skipaðs verjanda síns, alls tæpar níutíu þúsund krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert