Góður fundur að sögn Steingríms

Hópur fólks barði í dag tunnur utan við Þjóðmenningarhúsið.
Hópur fólks barði í dag tunnur utan við Þjóðmenningarhúsið. mbl.is/Eggert

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að fundur samráðshóps ráðherra og fulltrúa stjórnarandstöðunnar með ráðherrum og fulltrúum fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða, Íbúðalánasjóðs og fleiri hafi verið mjög góður og allir lýst miklum vilja að vinna þetta mál til enda.

Guðbjartur Hannesson, heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, tekur í svipaðan streng en fundinum fer að ljúka fljótlega.

Verið er að ræða niðurstöðu sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna sem skilaði skýrslu í gær.

Hópurinn hefur metið kostnað við mögulegar aðgerðir og hversu mörgum heimilum í greiðsluvanda hver og ein þeirra getur hjálpað.

Í vefriti efnahags- og viðskiptaráðuneytisins kemur fram að meta þurfi heildaráhrif leiðanna á hagkerfið til að tryggja að sá ávinningur sem af þeim getur hlotist valdi ekki töfum á efnahagsbata, lækkun lífeyrisréttinda, hækkun skatta eða ósanngjörnum tekjutilfærslum.

„Ljóst er að sumar leiðanna hafa þar neikvæðari áhrif en aðrar. Flöt niðurfelling skulda um 15,5% mun valda höggi á bæði ríkissjóð og lífeyrissjóðina, sem fjármagna meira en helming lánanna sem slík niðurfelling mundi ná til. Tapinu þyrfti ríkissjóður að mæta með hækkun skatta eða niðurskurði. Lífeyrissjóðirnir þyrftu að grípa til skerðingar bóta eða hækkunar iðgjalda.

Lækkun skulda er óhagfelld leið til að örva hagkerfi, þar sem einungis sá hluti sem kemur fram sem lækkun árlegra greiðslna birtist sem aukinn kaupmáttur. Þá er líklegt að heimilin auki sparnað til að vega upp áhrif af skerðingu lífeyrisréttinda.

Annar möguleiki er hækkun vaxtabóta sem skilar þeim tekjulægstu beinharðan pening í vasann. Aðgerðin er hlutfallslega ódýr og mun stuðla að auknu ráðstöfunarfé til þeirra lægst launuðu sem skilar sér svo út í hagkerfið í formi einkaneyslu. Sú aðgerð stuðlar að auknum hagvexti, þó að hún komi ekki beint þeim til góðs sem hafa séð lánin sín hækka, en hafa sloppið við greiðsluvanda," segir meðal annars í vefritinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert