Segir að ráðherra hafi verið hótað embættismissi

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði á Alþingi í dag að Jóni Bjarnasyni hefði verið sagt,  þegar greidd voru atkvæði í þinginu um tillögu um aðildarviðræður við Evrópusambandið á síðasta ári, að hann kynni að missa ráðherraembættið, greiddi hann ekki atkvæði með tillögunni.

Sagði Ásmundur Einar, að daginn sem  atkvæðagreiðslan var í þinginu um mitt síðasta ári hefði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, setið í þinghúsinu og kallað hvern þingmann Vinstri grænna á fætur öðrum inn á teppið til sín og sagt þeim, að ef þeir samþykktu tillögu um svonefnda tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og slík tillaga yrði samþykkt, þá væri fyrsta vinstristjórnin sprungin.

„Þá hlýtur maður að spyrja sig, þegar samið var um málið að það færi inn í þingið og fengi þar lýðræðislega umfjöllun, hvort þetta sé mjög lýðræðislegt. SMS-sendingar áttu sér í þingsal meðan á atkvæðagreiðslunni stóð þar sem þingmenn Vinstri grænna voru látnir vita um það, að ef málið yrði ekki samþykkt í þinginu þá væri fyrsta vinstristjórnin fallin.

Meira að segja gekk þetta svo langt, að einum ráðherranum, Jóni Bjarnasyni, sem þá hafði þegar ákveðið að styðja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og ætlaði ekki að styðja aðildarumsókn, var tjáð það - og hann getur ugglaust staðfest það sjálfur - að hann gæti átt það á hættu að geta  ekki verið áfram ráðherra í þessari ríkisstjórn. Að ekki væri talað um ef hans atkvæði yrði til þess að umsóknin yrði ekki samþykkt," sagði Ásmundur Einar.

Verið var að ræða um  þingsályktunartillögu frá Vigdísi Hauksdóttur og fleirum, um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins samhliða kosningum til stjórnlagaþings 27. nóvember.

Ásmundur Einar, sem er einn af flutningsmönnum tillögunnar, sagðist velta því fyrir sér, þegar fullyrt væri, að ekki væri meirihluti fyrir þessari tillögu á Alþingi, hvort til stæði að beita samskonar vinnubrögðum aftur.  

Ásmundur farinn í heyskap

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert