Festust í lótusblóminu

Leikarar á sviðinu á Hofi þegar Rocky Horror var frumsýndur. …
Leikarar á sviðinu á Hofi þegar Rocky Horror var frumsýndur. Þá gekk allt eins og í sögu. mbl.is/Skapti

Óvænt uppákoma varð á sýningu Leikfélags Akureyrar á Rocky Horror í menningarhúsinu Hofi í gærkvöldi þegar tölvubilun varð í ráarkerfi á sviðinu. Þegar persónurnar Rocky og Janet áttu að síga niður á sviðið í lótusblómi gerðist ekkert og leikararnir sátu fastir í háloftunum. 

Að sögn áhorfenda í salnum hófust vandræðin þegar tjaldið seig niður á sviðið og tveir leikarar voru fyrir framan það en einn fyrir aftan. Eftir skamma stund lyftist tjaldið aftur að hluta. 

„Ég verð að viðurkenna að mér var ekki alveg rótt," sagði María Sigurðardóttir, leikhússtjóri, sem var meðal áhorfenda í salnum. Hún segir, að þegar ljóst varð að tölvukerfið harðneitaði að virka hafi leikarar gengið fram á sviðið og tilkynnt áhorfendum að gera yrði hlé á sýningunni vegna tæknilegra örðugleika.

„Þeir Frank N Furter, Riff Raff, Dr. Scott og Brad voru á sviðinu og buðu áhorfendum að fara fram og fá sér hressingu á meðan," segir María. Hún segist hafa farið upp á svið og kannað hvort eitthvað væri í gangi með turtildúfurnar í lótusblóminu en svo reyndist ekki vera og á endanum var útveguð lyfta til að ná leikurunum niður.

María segir, að eðlilegt sé í nýjum húsum að einhverjar truflanir verði á tæknibúnaði í fyrstu. Hún segir að ráakerfið hafi ekki alltaf virkað sem skyldi á æfingum en þetta var fyrsta í fyrsta skiptið sem það brást í leiksýningu.

Sýningin tafðist í um hálftíma en síðan komu áhorfendur inn í salinn „í enn meira stuði en áður," segir María. Hún segir að allir hafi tekið þessu vel og stemmningin í húsinu verið afar góð. Sýningunni lauk síðan um klukkan 1:30.

Leikfélag Akureyrar hefur sýnt Rocky Horror fyrir fullu húsi frá því í byrjun september. Sýningin í gærkvöldi átti að vera sú síðasta í Hofi en þar sem jól nálgast og húsið er bókað fyrir tónleika og aðra viðburði þeim tengdum „og það er lítil Rocky-stemmning um jólin," segir María.

Hún segir hins vegar, að mjög sé lagt að leikhúsinu að halda sýningunum áfram á nýju ári og verið sé að kanna möguleika á því.

Í aðalhlutverkum í Rocky Horror eru Magnús Jónsson, sem leikur Frank N Furter, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, sem leikur Riff Raff, Bryndís Ásmundsdóttir, sem leikur Magnetu, Andrea Gylfadóttir, sem leikur Kolumbíu, Guðmundur Ólafsson, sem leikur Dr. Scott, Hjalti Rúnar Jónsson, sem leikur Rocky, Matthías Matthíasson sem leikur Eddie og þau Brad og Janet leika Atli Þór Albertsson og Jana María Guðmundsdóttir. Jón Gunnar Þórðarson leikstýrir.

Aðstandendur Rocky Horror í Hofi.
Aðstandendur Rocky Horror í Hofi. mbl.is/Skapti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert