VG tekst á um ESB-inngöngu

Frá flokksráðsfundi Vinstri-grænna ( VG ) 25. júní sl. Flokksráðið …
Frá flokksráðsfundi Vinstri-grænna ( VG ) 25. júní sl. Flokksráðið kemur saman um næstu helgi. mbl.is/Kristinn

Tvær tillögur verða lagðar fram á flokkráðsfundi VG í Hagaskóla um næstu helgi um afstöðuna til Evrópusambandsins. Kjarninn í þeim báðum er að VG sé á móti inngöngu í ESB. Í annarri er lagt til að inngönguferlinu verði haldið áfram en í hinni að „yfirstandandi aðlögunarferli“ að ESB verði stöðvað.

Samkvæmt heimildum mbl.is mun hópur sem stendur nærri Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG, ætla að leggja fram tillögu um að samningaferlinu verði haldið áfram.

Atli Gíslason alþingismaður mun vera fyrsti flutningsmaður hinnar tillögunnar og fleiri alþingismenn standa að henni,m.a. Ásmundur Einar Daðason. Samkvæmt heimildum mbl.is hafa margir tugir flokksmanna skrifað upp á þá tillögu. Sú tillaga er mjög afgerandi um að aðlögunarferlið að ESB verði stöðvað.

Tillaga þessi hefst á orðunum:

„Flokksráð VG gerir þá skilyrðislausu kröfu að yfirstandandi aðlögunarferli að Evrópusambandinu verði stöðvað, svokallaðri rýnivinnu vegna málsins hætt og að ekki komi til boðaðra fjárveitinga úr sjóðum ESB inn í íslenskt efnahags- og stjórnmálalíf. Flokksráð VG ítrekar þá afstöðu flokksins að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB. Mikilvægt er að sú afstaða flokksins komi skýrt fram í þjóðmálaumræðunni hvað sem líður ríkisstjórnarsamstarfi VG og Samfylkingar.“

Þá er ályktað um að þegar verði teknar upp efnislegar viðræður við ESB um grundvallarhagsmuni Íslands. Niðurstöður þeirra viðræðna liggi fyrir ekki síðar en 1. mars n.k. Þá skuli boðað til landsfundar VG þegar svörin hafi borist, ekki síðar en 15. apríl n.k. 

Sett eru fram nokkur lykilatriði sem fá þarf svör við. M.a. um forræði yfir 200 mílna fiskveiðilögsögunni. Undanþágu um takmarkaðar fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi, rétt Íslands sem strandríkis, innflutning á lifandi dýrum og hrámeti. 

Einnig um framleiðslustýringu og styrki í landbúnaði, stöðu Íslands gagnvart varnarsamstarfi ESB og um kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert