Ekki greint frá skuldum Marinós í Fréttatímanum

Í Fréttatímanum í dag er ekki greint frá skuldum Marinós G. Njálssonar, fyrrum stjórnarmanns í Hagsmunasamtökum heimilanna. Hann sagði sig úr stjórn í gær vegna þess að blaðið hefði ákveðið að birta frétt um skuldamál hans í tölublaðinu í dag.

 Á bloggi sínu í gær sagði Marinó að vegna „ítrekaðrar hnýsni fréttamanna í mín einkamál“ sæi hann sig tilneyddan til að segja af mér stjórnarmennsku í Hagsmunasamtökum heimilanna. „Jón Kaldal, ritstjóri Fréttatímans, og Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Fréttatímans, hafa ákveðið að mínar skuldir séu söluvara.  Hafa þeir ákveðið, þrátt fyrir óskir um hið gagnstæða, að birta frétt um skuldastöðu mína og konu minnar í næsta tölublaði.  Mér finnst þetta frekleg innrás í mitt einkalíf og konu minnar sem hefur það eitt sér til sakar unnið að vera gift mér,“ sagði hann á bloggi sínu.

Í Fréttatímanum í dag er fjallað um afsögn Marinós og aðdraganda hennar en þar eru ekki birtar upplýsingar um skuldir hans. 

Í frétt blaðsins kemur fram að Fréttatíminn hafi forvitnast um skuldamál Marinós vegna þess að hann hefur verið í forsvari fyrir Hagsmunasamtök heimilanna „samtök sem hafa barist fyrir flötum niðurskurði fasteignalána, fyrir því að höfuðstóll erlendra lána verði færður í íslenskar krónur á þeim degi sem lánið var tekið og að vextir verði endurreiknaðir, og einnig því að höfuðstóll verðtryggðra lána verði endurreiknaður. Marinó vildi ekki svara fyrirspurn Fréttatímans og sagði skuldamál sín vera einkamál sem kæmi ekki öðrum við. Jafnframt tjáði hann blaðamanni að ef greint yrði frá skuldastöðu hans, myndi hann segja sig úr stjórn Hagsmunasamtakanna. Það loforð hefði hann gefið konunni sinni og hann væri maður orða sinna,“ segir í frétt Fréttatímans. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert