Fékk aðgang samkvæmt upplýsingalögum

Bragi Guðbrandsson.
Bragi Guðbrandsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu, segir að engin gögn hafi farið frá Barnaverndarstofu um samninginn um meðferðarheimilið á Árbót önnur en þau sem skylt er að veita aðgang að samkvæmt upplýsingarlögum.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sakaði Barnaverndarstofu á Alþingi í dag um að leka „einkapósti milli okkar félagsmálaráðherra“ í blöðin, en Fréttablaðið birti tölvupóst sem Steingrímur sendi félagsmálaráðherra í janúar um Árbót.

Bragi sagði að hann hefði vísað erindi um aðgang að gögnum um samninginn við Árbót til lögfræðings stofnunarinnar. Erindinu hefði verið svarað og aðgangur veittur að gögnum í samræmi við ákvæði upplýsingalaga.

Fjármálaráðherra sagði á Alþingi í dag í samningnum við Árbót hefði ekki verið  að finna „ótvírætt uppsagnarákvæði heldur endurskoðunarákvæði.“ Samningurinn sem gerður var milli Barnaverndarstofu og Árbótar er til fjögurra ára og rennur út árið 2012. Hins vegar segir í samningnum að honum megi segja upp með sex mánaða fyrirvara. Þetta ákvæði er í samningnum vegna þess að ef forsendur breytast þykir ekki rétt að ríkið þurfi að greiða fyrir þjónustuna út samningstímann þó að engin þjónusta sé veitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert