Vilja auka metanframleiðslu

Þingmenn vilja auka framleiðslu á metani hér á landi.
Þingmenn vilja auka framleiðslu á metani hér á landi. Ómar Óskarsson

Þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram þingsályktunartillögu um metanframleiðslu. Flutningsmenn eru þrír þingmenn VG en meðflutningsmenn koma úr öllum flokkum á þingi, sem verður að teljast til ákveðinna tíðinda.

Arndís Soffía Sigurðardóttir, varamaður Atla Gíslasonar, Ólafur Þór Gunnarsson, varamaður Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, og Lilja Mósesdóttir leggja tillöguna fram. Með þeim í ályktuninni eru Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þuríður Backman, Björn Valur Gíslason og Auður Lilja Erlingsdóttir (varamaður Álfheiðar Ingadóttur), öll í VG, Samfylkingarþingmennirnir Skúli Helgason, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir,
Margrét Tryggvadóttir, Hreyfingunni, Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðisflokki, og Framsóknarþingmennirnir Guðmundur Steingrímsson og Birkir Jón Jónsson.

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir aukinni og markvissri metanframleiðslu í landinu og leita eftir samstarfi við sveitarfélög, einstaklinga og lögaðila í því skyni. Jafnframt hafi ríkisstjórnin forgöngu um að marka heildstæða stefnu um nýtingu metans og taki höndum saman við hagsmunaaðila um rannsóknir, fjármögnun og framvindu hagfelldra kosta við metanframleiðslu," segir í þingsályktuninni.

Í greinargerð með ályktuninni segir m.a. að aukin metanframleiðsla í landinu leggi grunn að orkuöryggi þjóðarinnar og sjálfbærni. Nýtingarmöguleiki á íslensku metani á þessari öld sé augljós og aukin notkun metans fyrirsjáanleg í samgöngum og iðnaði. Framleiðsla í landinu sl. 10 ár hafi verið meiri en sem nemur eftirspurn en síðastliðið ár hafi eftirspurn þó aukist mikið og ljóst sé að núverandi framleiðslugeta verði fullnýtt innan fárra ára. „Allt bendir til að á árinu 2011 muni notkun á metanökutækjaeldsneyti aukast en á árinu 2010 jókst hún um 35% frá árinu 2009. Notkun á metanökutækjum hefur stóraukist í heiminum og mikil aukning er þegar hafin á Íslandi," segir ennfremur í greinargerðinni.


   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert