Engin ákvörðun tekin í kvöld

Fréttamenn bíða við stjórnarráðið. Úr myndasafni.
Fréttamenn bíða við stjórnarráðið. Úr myndasafni. mbl.is/Golli

Fundalota fjögurra ráðherra ríkisstjórnarinnar, ráðgjafa hennar og lífeyrissjóða heldur áfram í fyrramálið. Tvisvar var fundað í stjórnarráðinu í dag og lauk síðari fundinum um fimmleytið. Fulltrúar lífeyrissjóðanna hyggjast kynna niðurstöðuna fyrir baklandi sínu í kvöld.

„Við ætlum að halda áfram að freista þess að ná samkomulagi um leið þar sem lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og Íbúðalánasjóður og ríkisvaldið koma að,“ sagði Arnar Sigurmundsson, formaður Landssambands lífeyrissjóða, í samtali við mbl.is fyrir stundu.

Áfram verður fundað í stjórnarráðinu í fyrramálið en Arnar staðfesti að engin ákvörðun um útfærslur til handa skuldugum heimilum yrði tekin í kvöld.

Samræmi tillögurnar

Arnar segir umræðurnar snúast um að samræma tillögur þeirra sem komi að samningaborðinu. 

„Það sem við vorum að gera, bæði með ríkisstjórninni og fjármálaeftirlitinu, var að fara yfir drög sem upphaflega komu frá ríkisstjórninni um að gera yfirlýsingu til handa skuldugum heimilum. Það er megininntakið og hefur verið allan tímann. Síðan hafa menn verið að skiptast á skoðunum, bæði við og bankarnir og ríkisstjórnin, til að freista þess að ná lendingu, einhvers konar samkomulagi sem allir gætu unað við.

Svigrúm lífeyrissjóðanna er þrengra en annarra að því leyti að við erum ekki með neina afskriftarsjóði til að mæta töpuðum útlánum heldur tökum við á því þegar þau koma upp. Okkur ber einnig skylda til að innheimta innheimtanlegar kröfur. Þannig höfum við unnið og það er sá megintónn sem við höfum lagt áherslu á og viðræðurnar hafa gengið út á það hvort að það sé hægt að samræma þessar aðgerðir því sem við erum að halda fram.

Út á það hafa viðræðurnar gengið og sjálfsögðu að einhverju leyti líka við bankanna. Því má segja að þær leiðir sem verið sé að skoða hafi gengið út á hvort hægt sé að ná samkomulagi sem er þá samræmt á milli banka og lífeyrissjóða með aðild Íbúðalánasjóðs og að sjálfsögðu ríkisvaldsins.

Að loknum fundinum síðdegis munu lífeyrissjóðirnir funda með formönnum stjórna og framkvæmdastjórum lífeyrissjóða klukkan 18.00 í kvöld. Þá munu við gera grein fyrir stöðu viðræðna,“ sagði Arnar en auk hans sátu þeir Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða (LL), og Þorbjörn Guðmundsson, stjórnarmaður í LL, fundinn.

Andvígir flatri niðurfellingu skulda

Arnar segir afstöðu lífeyrissjóðanna hafa legið fyrir.

„Þessar viðræður hafa, að okkar áliti, allt frá byrjun snúist um tvennt, eins og við höfum áður lýst yfir. Við höfum lýst yfir andstöðu við flata niðurfellingu skulda. Það hefur alltaf legið fyrir. Á sama tíma höfum við lýst yfir stuðningi við þá leið sem er í gangi, þótt hægfara sé, sem heitir sértæk skuldaaðlögun.

Það má segja að viðræðurnar hafi snúist um þessar tvær leiðir. Síðan hafa allir verið að reyna að passa upp á það að afskriftir, ef þær þurfa að eiga sér stað, verði með þeim hætti hjá sem flestum að það sé vegna þess að skuldir séu ekki innheimtanlegar. Það er sú lína sem við höfum lagt af stað með.“  

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar og atvinnulífsins

Ráðherrarnir sem sátu fundina eru Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra og Guðbjartur Hannesson félags-, trygginga- og heilbrigðisráðherra.

Signý Jóhannesdóttir, varaforseti Alþýðusambands Íslands, sat fundina, líkt og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, gerði fyrir hönd sinna samtaka. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, var fjarverandi en hann er í vinnuferð í Brussel.

Þá voru fulltrúar Fjármálaeftirlitsins viðstaddir fyrri fundinn, líkt og hagfræðingarnir Sigurður Snævarr og Yngvi Örn Kristinsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert