Óvenjulegt öldulag og gosefni

Landeyjahöfn.
Landeyjahöfn.

Siglingastofnun segir, að samanlögð áhrif óvenjulegs öldulags og gosefna hafa haft mjög afgerandi áhrif á efnisburð með ströndinni við Landeyjahöfn og breytt aðstæðum þar.

Fram kemur á vef stofnunarinnar, að efnisflutningar til vesturs með ströndinni hafi verið um 12 sinnum meiri á tímabilinu ágúst til október á þessu ári heldur en þeir hafa verið að jafnaði á sama árstíma á árabilinu 1958–2009. 

Siglingastofnun segir, að óvenjulega þrálátar suðaustanáttir undanfarna mánuði hafi valdið breytingum á ströndinni umhverfis Landeyjahöfn sem eru afar óhagstæðar fyrir rekstur ferjuhafnarinnar. Öldufarsathuganir á árabilinu 1958–2009 sýni að tíðni suðaustlægra ölduátta undanfarið sé óvenjulega há og því full ástæða til að ætla að þær breytingar verði að suðvestlægar áttir verði ríkjandi við Landeyjasand á ný.

Þá hafi gosefnin frá eldgosinu í Eyjafjallajökli gert sitt til að raska jafnvæginu í umhverfi Landeyjahafnar. Um 1,6 milljón rúmmetra af fínkornóttu gosefni hafi þegar borist til sjávar með Markarfljóti.

Þessar sérstöku aðstæður hafi haft óheillavænleg áhrif á rekstur Landeyjahafnar og valdið því að ekki hafi orðið þau not af mannvirkinu sem að var stefnt.

„En það er engin ástæða til að gefa skákina og játa sig sigraðan. Lítið hefur borist af efni inn um mynni Landeyjahafnar þrátt fyrir að mikið magn gosefna hafi verið á ferð með ströndinni. Það bendir til að hönnun hafnargarða og hafnarmynnis hafi tekist vel. Nýlegar dýptarmælingar veittu jákvæðar vísbendingar um að nú fari að draga úr efnisburði að hafnarmynninu. Og að því kemur að hinum þrálátu suðaustanáttum linnir og suðvestanátt verður ríkjandi á ný. Þá munu þeir hlutar strandarinnar þar sem rofs hefur gætt byggjast upp að nýju og efnisburður með landinu verða með venjulegum hætti. Náttúruöflin, sem breyttu forsendum fyrir rekstri Landeyjahafnar þegar við upphaf starfsemi hennar, munu einnig verða til þess að skapa þær forsendur á nýjan leik," segir á vef Siglingastofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert