Skuldabréf Björgólfs til sérstaks saksóknara

Björgólfur Guðmundsson.
Björgólfur Guðmundsson. mbl.is/Kristinn

Embætti sérstaks saksóknara hefur nú til rannsóknar kaup fjárfestingarsjóðs fyrirtækjabréfa Landsbankans á 400 milljóna króna skuldabréfi útgefnu af Björgólfi Guðmundssyni í byrjun árs 2005. Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins.

Líkt og greint var frá á mbl.is fyrir ári síðan vísaði Landsbankinn (NBI)  máli sem tengist fjárfestingasjóði á vegum Landsvaka til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Snýr málið að skuldabréfi sem sjóðurinn keypti af Björgólfi Guðmundssyni þáverandi formanni bankaráðs Landsbankans árið 2005 en kaupin voru brot á fjárfestingastefnu sjóðsins.

Fram kom í frétt mbl.is 6. nóvember 2009 að hlutdeildarskírteinishöfum hafi verið greitt úr sjóðnum eftir því sem eignum hefur verið komið í verð. Bar sjóðnum að fjárfesta í skuldabréfum fyrirtækja, fjármálastofnana, ríkis og sveitarfélaga.

Sjóðurinn keypti engu að síður árið 2005 skuldabréf á einstakling. Andvirði þess nam 400 milljónum króna sem þá var óverulegur hluti heildareigna sjóðsins Fram kemur í tilkynningu Landsvaka hf. að greitt var af skuldabréfinu samkvæmt samningi framan af, og síðar var hluta af eftirstöðvum skuldajafnað. Nú nema eftirstöðvar bréfsins um 190 milljónum króna.

Skuldabréfið var gefið út af Björgólfi Guðmundssyni sem var þá formaður bankaráðs Landsbanka Íslands hf. og einn aðaleigandi bankans. Eftir bankahrunið tóku nýir stjórnendur við rekstri Landsvaka hf. og ný stjórn var skipuð.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert