Taka verður skýrsluna alvarlega

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á flokkstjórnarfundinum í dag
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á flokkstjórnarfundinum í dag mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, fagnar umbótaskýrslu Samfylkingarinnar sem kynnt var í dag. Hún segir að í skýrslu umbótanefndarinnar komi fram margvísleg gagnrýnisatriði sem flokkunum taki að taka alvarlega. Einungis þannig er hægt að gera betur. 

Það sé rétt að Samfylkingin hafi ekki verið fórnarlamb heldur gerendur í því sem gerðist þegar flokkurinn var í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn hafi getað gert miklu betur. 

Að sögn Jóhönnu finnst hugmyndir um breytingar á vali á frambjóðendum en gæta verði þess að fara ekki marga áratugi aftur á baki við það. Einhverskonar persónukjör eða auknir möguleikar á að hafa meiri áhrif á röðun frambjóðenda sé vel athugandi og skoða þurfi það betur. 

Hún segir að Samfylkingin hafi ofmetið þann tíma sem var til stefnu þegar flokkurinn var í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokkinn. Ekki sé hún sammála því sem fram komi í skýrslu umbótanefndar um að Samfylkingin hafi verið veikari flokkurinn í  stjórnarsamstarfinu þó svo að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið stærri á sumum sviðum, svo sem á sviði efnahagsmála og fjármála. Áhrif Samfylkingarinnar hafi ekki verið næg á þessum sviðum.

Formaður Samfylkingarinnar telur mikilvægt að flokkurinn biðji þjóðina afsökunar á störfum sínum á þessum tíma. Ekki bara hún og einstakir flokksmenn heldur flokkurinn í heild. Hún segir að umbótanefndin og sá samhugur sem er um skýrslu hennar á flokksstjórnarfundinum í dag gefi fullt efni til.

Ekki sé hins vegar nóg að biðja afsökunar heldur verði flokkurinn að sýna það að hann hafi lært af þeim mistökum sem gerð voru. 

Að sögn Jóhönnu er verið að vinna að róttækum breytingum á Stjórnarráði Íslands. Til að mynda verði aukin samábyrgð ráðherra. Jafnframt verði samstarf við Alþingi aukið. Eins er sérstaklega fjallað um ábyrgð ráðherra gagnvart einstökum stofnunum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar var meðal fundarmanna á …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar var meðal fundarmanna á flokkstjórnarfundinum í dag mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert