Skatt- og vaxtatekjur ríkisins lækka

Fjármálaráðuneytið.
Fjármálaráðuneytið.

Áætlun fjármálaráðuneytisins um skatt- og vaxtatekjur ríkissjóðs á næsta ári hefur lækkað um 7,5 milljarða króna frá því fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október. Ástæðan er einkum sú, að  hagvaxtarspár fyrir næsta ár hafa lækkað umtalsvert.

Samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem birt var í nóvember, verður hagvöxtur á næsta ári 1,9% en eldri spá gerði ráð fyrir 3,2% hagvexti árið 2011.

Fram kemur í minnisblaði fjármálaráðuneytisins, sem fylgir með breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið, að dekkri þjóðhagshorfa fyrir næsta ár þýði, að skatttekjur ríkissjóðs lækki væntanlega um 6 milljarða króna.

Þá séu ótalin áhrifin á vaxtatekjuáætlun ríkissjóðs. Hagstofan hafi lækkað spá sína um stýrivexti á árinu 2011 verulega síðan í júní og hafi það bein áhrif á áætlun um vaxtatekjur af bankareikningum ríkissjóðs, sem hafi nú verið lækkuð um nálægt 1,5 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka