Ljósafoss niður Esjuna

Þorsteinn með ennisljós.
Þorsteinn með ennisljós. mbl.is/Kristinn

„Þetta var ljósafoss alla leið niður,“ segir Þorsteinn Jakobsson, sem stóð í dag fyrir svokallaðri Ljósafossgöngu niður Esjuna til styrktar Ljósinu, endurhæfingar og stuðningsmiðstöð. Hann telur að um fjögur til fimm hundruð manns hafi tekið þátt í göngunni.

„Þetta var ótrúlega flott ganga. Veðrið var æðislegt, hefði ekki getað verið betra,“ sagði Þorsteinn nú fyrir stundu þegar hann var kominn niður í Esjustofu en allur ágóði af sölu þar í dag rennur til Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein eða blóðsjúkdóma og aðstandendur þeirra. 

Í tilefni af fimm ára afmæli Ljóssins félagsins ákvað Þorsteinn að ganga 365 fjallstoppa á árinu. Gangan á Esjuna í dag var síðasti toppurinn. Voru allir göngumenn beðnir um að hafa meðferðis vasa- eða ennisljós eða kyndla á leiðinni niður í rökkrinu. 

„Ég á hellings orku eftir ennþá,“ segir Þorsteinn aðspurður hvort hann sé ekki að niðurlotum kominn eftir allar göngurnar á árinu. Hann sé alltaf að ganga og muni halda því áfram og setja sér ný markmið.

Þorsteinn byrjaði fjallagönguna miklu þann 1. Janúar sl. þegar hann gekk á Helgafell. Síðan hefur hann gengið á toppa að meðaltali 6 daga í viku um allt land.  Hann hefur haldið dagbók allan tímann og einnig skrifað í bækur sem hafa verið tilstaðar á toppum fjallanna. 

Þau fjöll sem hann hefur gengið eru m.a. Hvannadalshnjúkur, Baulan í Borgarfirði, Hafnarfjall, Skarðsheiði, Skessuhorn, Ok, Snæfellsjökull, Súlurnar Akureyri, Hlíðarfjall, Hólmatindur, Svartafjall, Hádegisfjall, Grænafell, Spákonufjall, Böggastaðafjall og fleiri. 

Þorsteinn varð 53 ára þann 10.10.10 og er í toppformi. Hann hefur tvisvar sinnum áður gengið til styrktar Ljósinu, núna síðast í maí þegar hann gekk 10 tinda á 12 ½ klukkustund.

Einnig er hægt að leggja Ljósinu lið með því að leggja inn á styrktarsjóð félagsins, 0130-26-410520, kt. 590406-0740.

mbl.is/Kristinn
mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert