Skuldir Kópavogs lækka

Kópavogur.
Kópavogur. mbl.is/Sigurður Bogi

Tillaga að fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2011 var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag. Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að skuldir bæjarins eru miklar og brýnt að hagræða og forgangsraða í rekstri og greiða niður skuldir. 

Í tilkynningu segir jafnframt að höfuðáhersla verði lögð á að verja grunnþjónustuna; leikskólana, skólana og félagsþjónustuna, sem þýðir að tímabundið muni þrengja að rekstri annarra málaflokka og ekki verði hjá því komist að hækka gjaldskrár. Miðað er við að útsvar fyrir árið 2011 verði óbreytt og að fasteignaskattur breytist til samræmis við verðlagsþróun. Holræsagjöld, vatnsgjöld og sorphirðugjöld hækka til að mæta auknum kostnaði. Þá er verulega dregið saman í yfirstjórn bæjarins m.a. með skipulagsbreytingum í stjórnsýslu, sameiningu nefnda og fækkun funda.

Tíu af ellefu bæjarfulltrúum standa að tillögunni sem unnin var í nánu samráði við nefndir og ráð bæjarins. Við vinnslu hennar var auk þess kallað eftir sjónarmiðum bæjarstarfsmanna og bæjarbúa og segir í tilkynningu að með því hafi verið lögð áhersla á að allir Kópavogsbúar geti tekið þátt í stefnumótun bæjarins.


Punktar úr fjárhagsáætluninni:

  • Stefnt að því að greiða inn á skuldir bæjarsjóðs um milljarð á ári næstu árin.
  • Áætlað að rekstrarafgangur samstæðureiknings verði um 103 milljónir.
  • Veltufjárhlutfallið styrkist og verður 0,88.
  • Veltufé frá rekstri verður rúmir 2 milljarðar.
  • Áætlað að hagræða í rekstri mötuneyta í grunnskólum bæjarins.
  • Stefnt að því að hagræða í skólaakstri og er útboð fyrirhugað í vor.
  • Leikskólagjöld hækka en verða áfram með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu .
  • Ýmsir kostnaðarliðir hækka til að standa undir auknum rekstrarkostnaði.
  • Rekstrarsamningar við íþróttafélögin verða teknir til endurskoðunar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert