Skosk stjórnvöld krefjast aðgerða gegn Íslandi

James Paice, landbúnaðarráðherra Breta, Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skota og Maria …
James Paice, landbúnaðarráðherra Breta, Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skota og Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, á fundi í Brussel í september. Reuters

Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra heimastjórnar Skotlands, segir að í ljósi þeirrar ákvörðunar íslenskra stjórnvalda að ákveða einhliða 147 þúsund tonna makrílkvóta fyrir íslensk skip á næsta ári sé enn mikilvægara en áður, eð alþjóðasamfélagið standi saman og grípi til harðra aðgerða til að vernda einn stærsta og verðmætasta fiskistofn Evrópu áður en það verður of seint.

„Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur skuldbindið sig til að grípa til harðra aðgerða gegn Íslandi - og Færeyjum - og setja nauðsynlegar reglur svo hægt verði að beita marktækum þvingunum," hefur vefurinn Fishnewseu eftir Lochhead.

Lochhead segir við vefinn, að Íslendingar sniðgangi vísindalega ráðgjöf og hugsi aðeins um skammtímagróða.  „Ákvörðun Íslendinga að gefa ekki aðeins út einhliða kvóta, eins og þeir gerðu fyrir þetta ár, heldur að auka hann enn frekar, sýnir að þeir hirða ekkert um fiskverndarsjónarmið og alþjóðleg viðhorf," segir hann.  

Ráðherrann segir, að makrílstofninn hafi verið nýttur með sjálfbærum hætti undanfarinn áratug af skoskum sjómönum og einnig sjómönnum í Noregi og fleiri Evrópusambandsríkjum. Grípa þurfi til harða aðgerða til að koma í veg fyrir að óábyrgar ákvarðanir Íslendinga leiði  til hruns stofnsins. 

Breska ríkisútvarpið BBC hefur hins vegar eftir Tómasi Heiðari, aðalsamningamanni Íslands í makrílviðræðunum, að ákvörðun íslenskra stjórnvalda um makrílkvóta á næsta ári tryggi að hlutur Íslendinga af makrílveiðinni verði 16-17% eins og á þessu ári. 

Tómas segir, að ákvörðun Evrópusambandsins og Noregs  að taka sér yfir 90% af þeim kvóta, sem vísindamenn mæla með, sé algerlega óréttmæt og sé í raun ákvörðun um ofveiði á næsta ári.  

„Evrópusambandið og Noregur eiga ekki makrílstofninn ein og með því að taka sér nærri allan þann heildarkvóta, sem vísindamenn mæla með, hunsa þau lögmæta hagsmuni hinna tveggja strandríkjanna, Íslands og Færeyja, og einnig hagsmuni Rússa," segir Tómas.

Fishnewseu

BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert