Greindist með svínainflúensu

Svínaflensa hefur komið upp hér á landi.
Svínaflensa hefur komið upp hér á landi.

Svínainflúensa (H1N1) hefur nú greinst í ungum fullorðnum einstaklingi hér á landi sem nýkominn er frá Englandi. Samkvæmt upplýsingum frá embætti sóttvarnalæknis, sem sendar hafa verið til lækna, mun viðkomandi ekki vera alvarlega veikur. Hann hafði ekki verið bólusettur við sjúkdómnum. 

Fram kom á mbl.is í gær, að svínaflensa hefur gengið á Bretlandseyjum að undanförnu. 

Í tilkynningu til lækna frá sóttvarnalækni, sem mbl.is hefur séð, segir að eitt tilfelli af hefðbundinni inflúensu (H3N2) muni hafa greinst í öðrum einstaklingi.

Bólusetning gegn svínainflúensu frá því í fyrra virðist vernda vel gegn svínainflúensunni sem nú gengur. Því telur embætti sóttvarnalæknis ekki ástæðu til að bólusetja þá aftur, sem létu bólusetja sig í fyrra. Þá sé  ástæða til að ætla að þeir sem fengu staðfesta svínainflúensu síðasta vetur séu verndaðir.

Ólíklegt er talið, að upp komi stór svínaflensufaraldur hér á landi þar sem um helmingur þjóðarinnar var bólusettur gegn svínainflúensu í fyrra og allstór hluti sýktist. Hins vegar geti alvarlegar sýkingar skotið upp kollinum hjá óbólusettum einstaklingum.

Embætti sóttvarnalæknis hvetur alla einstaklinga, sem ekki voru bólusettir gegn svínainflúensu í fyrra, til að láta bólusetja sig nú við sjúkdómnum. Þá ættu       einstaklingar með undirliggjandi áhættuþætti, sem bólusettir voru í fyrra, að láta bólusetja sig við árlegri  inflúensu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert