Hörð átök í stjórn VR

Kristinn Örn Jóhannesson, formaður VR.
Kristinn Örn Jóhannesson, formaður VR.

Kristni Erni Jóhannessyni, formanni VR, var sagt upp störfum sem framkvæmdastjóra VR á fundi stjórnar félagsins í gærkvöldi.

Lögð var fram vantrauststillaga á störf formannsins, en hún kom hins vegar ekki til atkvæðisgreiðslu þar sem frávísunartillaga var lögð fram og samþykkt með meirihluta atkvæða. Stjórnin hefur ekki umboð til þess að segja Kristni upp sem formanni VR, og mun hann gegna því starfi áfram.

Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður VR, segir Kristin ekki hafa valdið báðum störfum og því hafi hann verið settur af sem framkvæmdastjóri. Með breytingunum segir hann Kristinn geta nú einbeitt sér að þeim krefjandi verkefnum sem framundan eru.

„Upplýsingar frá skrifstofunni í gegnum framkvæmdastjórann hafa borist stjórninni illa eða jafnvel ekki. Mál sem koma inn á skrifstofuna hafa legið á borðinu hjá honum svo mánuðum skiptir og við erum að stytta þessa boðleið sem verður vonandi til þess að við sem stjórnarmenn getum unnið okkar starf. Óánægja minnihlutans með störf hans hefur verið nánast frá byrjun. Með þessu er alla veganna kominn á vinnufriður innan stjórnarinnar fram að næstu kosningum,“ segir Ragnar.

Aðspurður hver taki við embætti framkvæmdastjóra segir Ragnar það enn ekki vera ákveðið en vonir standa til að einhver á skrifstofu félagsins geti tekið að sér starfið í þá þrjá mánuði sem þarf að brúa.

Að sögn Kristins á niðurstaða fundarins ekki eftir að breyta andanum innan félagsins: „Ég get ekki séð það. Mér fannst nú umræðurnar á fundinum snúast um flest aðra en mig þó svo að tillögurnar hafi beinst að mér. Það er barátta um þetta félag sem slíkt og það er náttúrulega ekkert auðvelt að hafa komið inn, einn og óháður launþegi sem tilheyrir hvorugum hópnum. Ég held að það hafi nú verið ljóst frá upphafi að hvorugur hafi sætt sig við þá niðurstöðu [að hann var kosinn]. Fundurinn í gær var kannski bara birtingamynd af því.“

Kristinn segist aldrei hafa verið framkvæmdastjóri félagsins, einungis formaður, og að hinn daglegi rekstur hafi verið í höndum sviðstjóra félagsins.

Ragnar segir að Kristni hafi verið falinn daglegur rekstur skrifstofunnar, sem er framkvæmdastjórastaða. „Honum var falið það verkefni samhliða formennskunni. Hann framselur sitt umboð síðan til sviðstjóra, en er starfandi framkvæmdastjóri engu að síður.“

Það var náttúrulega tekist á

Þegar Ragnar var spurður hvernig andinn á stjórnarfundinum í gærkvöldi hefði verið svaraði hann að það hafi náttúrulega verið tekist á.

„Þetta kemur inn á ákveðið mál sem snýr að svokölluðum VR skuggum. Þegar Kristinn var kjörinn fer hann í sæng með gömlu VR klíkunni sem hefur stýrt félaginu í áratugi. Ástæðan fyrir því að hann fær á sig vantraust sem framkvæmdastjóri er að þessi hópur hefur verið að vinna á bak við tjöldin með að koma með nýjan formann. Þetta er nákvæmlega það sem við bentum Kristni á á sínum tíma þegar hann fór að vinna með þessu fólki og  þessi starfandi meirihluti er búinn að vera innan félagsins frá því að við komum þarna ný inn og hefur öllu ráðið. Við erum þrjú til fjögur sem höfum verið í þessum minnihluta, en okkur var ýtt úr öllum trúnaðarstörfum félagsins þegar síðustu kosningar voru,“  segir Ragnar.

Ragnar segir að samstarfið hafi brostið þegar meirihlutinn kynnti Stefán Einar Stefánsson, viðskiptasiðfræðing,. sem næsta formannsefni. „Þeir stinga Kristinn Örn í bakið. Mér finnst þetta alveg ótrúlegt. Þessi virki meirihluti er búinn að standa á bak við formanninn í nánast óstarfhæfri stjórn í á annað ár, eingöngu til þess að bíða eftir því að geta komið með sitt formannsefni fram. Tímapunkturinn þegar þau láta til skara skríða er einmitt þegar Kristinn hótaði að fara að hreinsa til á skrifstofunni, og hreinsa til í baklandi skugganna. Það sem við erum að horfa upp á þarna inni er með hreinum ólíkindum. Þetta fólk er með völdin í félaginu algjörlega á heilanum. Ástandið í þjóðfélaginu virðist engu skipta.“ 

Aðspurður um ákvörðun meirihlutanefndar að kynna til leiks nýtt formannsefni segir Kristinn: „Ég held að fólki sé alveg frjálst að finna sér einhverja frambjóðendur og styðja þá.“

Framhalds aðalfundur 11. janúar

Að sögn Ragnars verður haldinn framhaldsaðalfundur þann 11. janúar en þar verður kosið um tvær tillögur. Annars vegar tillögu formanns og meirihluta stjórnar um áframhaldandi fulltrúalýðræði innan félagsins, og hins vegar tillögu minnihlutans.

„Við munum leggja fram tillögu þar sem félagsmenn koma til með að hafa beinan kosningarétt í félaginu. Við munum svo reyna að vinna þeirri tillögu fylgi á næsta aðalfundi. Þar geta félagsmenn þá alla veganna kosið um það hvort þeir vilji fá kosningarrétt í félaginu eða ekki. Og síðan í framhaldinu af því verður farið í kosningar. Við vonum svo sannarlega að félagsmenn láti sig þessi mál varða og kjósi að hafa kosningarrétt í sínu eigin félagi heldur en að láta þessa skítlegu valdabaráttu innan félagsins verða að veruleika.“ 

Ragnar segist bjartsýnn á að félagsmenn mæti á fundinn til þess að sína í verki óánægju sína með störf stjórnarinnar og kjósi með því að fá beinan kosningarrétt í félaginu.

„Svo liggur fyrir tillaga sem verður tekin fyrir á næsta framhaldsfundi  frá minnihlutanum þar sem við erum að reyna að fá alla stjórnina til að segja af sér út af þessari ömurlegu stöðu sem komin er upp innan félagsins. Hún verður væntanlega borin upp á næsta fundi. Hún verður ekki að veruleika nema að allir séu tilbúnir til þess að leggja störf sín í dóm félagsmanna. Ég leyfi mér að stórefast um það að þeir sem stýra félaginu og hafa gert það bak við tjöldin  undanfarna áratugi séu tilbúnir að leggja störf sín í dóm félagsmanna.“

Þegar Kristinn var spurður út í tillögu minnihlutastjórnar sagði hann: „Það hafa verið miklar umræður um lagabreytingar hjá félaginu m.a. í stjórn og trúnaðarráði. Menn eru ekkert endilega samstíga. Það var álit meirihlutans, og mín skoðun líka, að það verði alltaf að vera sá möguleiki fyrir félagsmenn að kalla eftir alsherjarkosningum með einhverjum hætti. En hinsvegar hefur meirihlutinn verið þeirrar skoðunar að það sé ekkert endilega vilji félagsmanna að vera í allsherjakosningum einu sinni á ári. Þarna er bara ágreiningur um framkvæmd á kosningum í rauninni.“

Ragnar Þór Ingólfsson.
Ragnar Þór Ingólfsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert