Jóhanna blæs á framsóknarsögur

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kveðst ekki hafa átt í neinum samskiptum við Framsóknarflokkinn varðandi stjórnarsamstarf. „Það hefur enginn haft samband við mig úr Framsóknarflokknum og ég hef ekki haft samband við neinn. Þetta eru bara svona sögur sem ganga og fólk skemmtir sér við. Það er ekkert hæft í þessu. Það er meirihlutaríkisstjórn í landinu,“ segir Jóhanna í samtali við Morgunblaðið.

Gefur Steingrími svigrúm fram á nýtt ár

Jóhanna játar þó að þremenningarnir Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir veiki ríkisstjórnina. „Það eru að vísu þrír stjórnarliðar sem studdu ekki fjárlögin sem er slæmt og veikja ríkisstjórnina en það er hjá samstarfsflokknum sem er núna að vinna í því máli.“

„Formaður Vinstri grænna hefur beðið um svigrúm til að fara yfir það mál í sínu baklandi þannig að ég gef honum það svigrúm fram til byrjun árs. Þau funda 5. janúar og ég vona að niðurstaðan úr þeim fundi verði að við komum með sterkari og styrkari stjórnarflokka eftir það. Það verður auðvitað að ráðast en ef ekki þá verðum við bara að skoða málið í framhaldi af því,“ segir Jóhanna sem kveður engar ákvarðanir liggja fyrir.

„Það eru engar ákvarðanir sem liggja fyrir eða hugleiðingar um það að taka inn einhvern af stjórnarandstöðuflokkunum eins og sögur hafa gengið um. Ég ýti því öllu til hliðar og blæs á það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert