Ekur milli sögustaða á gömlum sjúkrabíl

Emily Lethbridge við sjúkrabílinn.
Emily Lethbridge við sjúkrabílinn.

Breski sagnfræðingurinn Emily Lethbridge ætlar á næsta ári að aka milli sögustaða Íslendingasagnanna á gömlum breskum hersjúkrabíl. Hún segist vilja lesa allar Íslendingasögurnar á þeim slóðum þar sem þær gerast og ætlar síðan að skrifa bók um reynslu sína. 

Lethbridge er 31 árs fræðimaður við Cambridge-háskóla og er sérfræðingur í Íslendingasögunum. Hún segir við breska ríkisútvarpið, BBC, að hún vilji rannsaka hvernig sögurnar falli að landslaginu þar sem þær urðu til. 

„Það er erfitt að sjá sögusviðið fyrir sér þegar maður situr á bókasafni við skrifborð með prentaða útgáfu af þessum sögum," segir hún.  „Ég vil því upplifa sögurnar að nýju með því að lesa þær þar sem þær gerast."

Hún segist einnig hafa mikinn áhuga á að ræða við Íslendinga um Íslendingasögurnar og hvaða þýðingu þær hafi á Íslandi. 

„Mig langar að tala við Íslendinga, sem búa á svæðunum þar sem sögurnar gerast og fá tilfinningu fyrir því hvort þær séu enn í munnlegri geymd og hvort þar séu til sögur sem ekki koma fram í skrifuðum texta." 

Hún ætlar að blogga um ferðir sínar og gefa ferðasöguna síðan út til að koma því á framfæri við almenning í Bretlandi, að meira sé að finna á Íslandi en banka og eldfjöll. 

Ferðin hefst 5. janúar. Emily segist hafa búið sig vel undir ferðina enda er allra veðra og aðstæðna von á Íslandi. Hún hefur meðal annars farið á skyndihjálparnámskeið, lært að veiða og gera við bíla.  Sjúkrabíllinn er Land Rover, árgerð 1990, og því framleiddur fyrir tíma tölvutækninnar í bílum.

Bloggvefur Emily Lethbridge  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert