Búa sig undir storm og flóð

Hvalaskoðunarbátarnir liggja við festar í Húsavíkurhöfn. Þar má búast við …
Hvalaskoðunarbátarnir liggja við festar í Húsavíkurhöfn. Þar má búast við versnandi veðri í kvöld og stórstraumsflóði. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Menn hafa verið að treysta landfestar báta í Húsavíkurhöfn í dag og búa sig undir stórstraumsflóð og storm í kvöld. Hjálmar Hjálmarsson, hafnarvörður, sagði að tveir bátar sem ekki eiga heimahöfn á Húsavík hafi komið þangað inn undan veðrinu.

„Það er verst hjá okkur hér á höfninni ef hann fer í norðvestanáttina,“ sagði Hjálmar. Hann sagði að vindur hafi verið norðanstæður, þegar rætt var við hann rétt fyrir klukkan 16.00 í dag. Í þeirri átt er ekki svo slæmt í höfninni.

Veðrið á að fara hratt yfir. Um níuleytið í kvöld á hann að snúast til norðvestanáttar samkvæmt veðurspá. Upp úr miðnætti er stórstraumsflóð á Húsavík. Mikill vindur af óhagstæðri vindátt með tilheyrandi áhlaðanda og hækkandi sjávarstöðu vegna stórstraumsflóðsins eiga því að fara saman. 

„Það verður mikill vindur,“ sagði Hjálmar. „Það er ekkert hægt að gera annað en bíða og bregðast við ef eitthvað gerist.“ Hann sagði að björgunarsveitin verði í viðbragðsstöðu og eins verði aukavakt hjá lögreglunni. Ef eitthvað gerist verður björgunarsveitin ræst út um leið.

Samkvæmt veðurspá á vindáttin á Húsavík að snúast aftur um eittleytið í nótt. 

Skólahald í VMA fellt niður

Vegna mjög slæms veðurútlits í nótt og fyrramálið hefur verið afráðið að fella niður kennslu í Verkmenntaskólanum á Akureyri á morgun, föstudaginn 7. janúar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert