Fréttaskýring: Afnotaréttur verði til „hóflegs tíma“

Júlíus segir 25-30 ára afnotarétt mundu þýða að afskrifa þyrfti …
Júlíus segir 25-30 ára afnotarétt mundu þýða að afskrifa þyrfti orkuverin á mun styttri tíma sem aftur kallaði á hærra orkuverð. mbl.is/Kristján

Nýtingarleyfi á auðlindum í opinberri eigu skulu í framtíðinni gefin út til „hóflegs tíma, til dæmis 25-30 ára í senn, en liðkað verði fyrir því eftir föngum að leigutaki sem stendur í skilum og uppfyllir sett skilyrði, m.a. um ábyrga umgengni, fái framlengingu leyfis“.

Svo hljóðar ein þeirra „grundvallarforsendna“ sem stýrihópur sem Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra skipaði í ágúst 2009 sammæltist um við gerð heildstæðrar orkustefnu fyrir landið. Lokaútgáfa stefnunnar liggur ekki fyrir en hins vegar má nálgast drög að henni á vefnum orkustefna.is, þar sem almenningi og hagsmunaaðilum er gefinn kostur á að gera athugasemdir áður en endanleg útgáfa lítur dagsins ljós.

Þörf á skýrum reglum

Drögin eru ítarleg, alls 72 síður, og segir í undirkaflanum 7.4, Leiga á vatns- og jarðhitaréttindum, að „með tilkomu samkeppni og aðkomu einkafyrirtækja að greininni [séu] skýrar reglur um leigu á vatns- og jarðhitaréttindum orðnar enn brýnni en áður“.

Rifjað er upp að árið 2003 hafi Ísland innleitt löggjöf Evrópusambandsins um samkeppni í orkuvinnslu, í gegnum EES-samninginn, og að fram að því hafi „nær öll raforkuvinnsla“ verið í höndum fyrirtækja í opinberri eigu.

Ennfremur hafi auðlindanefnd gert þá tillögu í skýrslu sinni á árinu 2000 að „tryggja þurfi að þjóðin njóti í framtíðinni eðlilegrar hlutdeildar í þeim umframarði (auðlindarentu), sem nýting vatnsafls í eigu þjóðarinnar skapar“.

Gjöld eða skattar

Segir síðan í framhaldinu að þótt nefndin hafi ekki talið efni til auðlindagjalds á vatnsafli í einkaeign geti ríkið hins vegar „innheimt kostnaðargjöld eða lagt á auðlindaskatt í þeim tilvikum“.

Jafnframt er rifjað upp að Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, hafi á árinu 2008 skipað nefnd til „að gera tillögur um fyrirkomulag á leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu íslenska ríkisins“. Þar hafi ein grundvallarforsendan verið sú að „ríkið eigi undantekningarlaust að taka gjald fyrir rétt til nýtingar þessara auðlinda“.

Þá hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu, líkt og stýrihópur iðnaðarráðherra, að liðka eigi fyrir því að tímabundin ráðstöfun á auðlind „til tiltekins aðila verði framlengd hafi viðkomandi staðið við þau skilyrði sem sett voru og nýtt auðlindina með ábyrgum hætti“.

Framlengingin nauðsynleg

En hvernig kemur breytingin við einkaaðila sem hyggjast leigja afnotarétt á auðlindum?

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, svarar því til að 25-30 ár séu „allt of skammur tími“.

„Ef það er aðeins hægt að leigja auðlindir til 25-30 ára er vonlaust að leggja út í nauðsynlegar fjárfestingar. Staðan breytist hins vegar ef hægt verður að nýta vilyrði um að menn eigi kost á framlengingu gegn því að standa sig vel í umgengni við auðlindina. Þetta gæti einnig valdið vandamálum við fjármögnun, sérstaklega við áfangaskiptar jarðhitavirkjanir sem eru kannski stækkaðar árum eða áratugum eftir fyrsta virkjunaráfanga.

Á það má benda að síðasta stækkun í Svartsengi var 30 MW og var gangsett 2007 eða 32 árum eftir að framkvæmdir hófust.“

Spurning um áratugi

25-30 ár eru ekki langur tími þegar fjárfestingar í orkumannvirkjum eru annars vegar.

Til samanburðar bendir Júlíus Jónsson á að nú sé miðað við 65 ára afnotarétt í lögunum. „Það var málamiðlun á sínum tíma. Orkufyrirtæki og sveitarfélög vildu 99 ár, eins og þykir eðlilegt þegar til dæmis hús eru leigð út. Ég bendi einnig á að nú þegar geta menn misst nýtingarleyfið ef Orkustofnun telur þá ekki hafa farið að lögum og skilmálum hvað sem leigutíma líður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert