Rannsókn á ríkisaðstoð við Sjóvá að ljúka

Sjóvá.
Sjóvá.

Vonir standa til þess að eftirlitsstofnun EFTA (ESA) geti lokið athugun á ríkisaðstoð við vátryggingafélagið Sjóvá á vormánuðum þessa árs. Fjármálaráðuneytið hefur komið á framfæri athugasemdum og frekari upplýsingum við ESA vegna rannsóknarinnar. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra.

ESA tilkynnti 22. september 2010 að stofnunin hefði hafið svokallaða formlega rannsókn vegna málsins en undanfari þess er minnisblað Fjármálaeftirlitsins (FME) frá 29. júní 2009 en í því kom fram að rekstur vátryggingastarfsemi Sjóvár væri með ágætum en tiltekin fjárfestingarstarfsemi og aðrar ráðstafanir fyrrverandi eigenda, stjórnar og lykilstarfsmanna hefðu komið félaginu í þrot.

FME lagði á það ríka áherslu að félagið yrði ekki sett í þrot. Voru veigamestu rök FME þau að gjaldþrot félagsins hefði „alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir fjármálastarfsemina hér á landi þ.á.m. neytendur.“ Vátryggingafélagið væri meðal þeirra fjármálafyrirtækja sem veittu ákveðna grunnþjónustu hér á landi og gegndi því mjög mikilvægu þjóðfélagslegu hlutverki. Mikilvægt væri því að mati stofnunarinnar að allt yrði gert sem unnt væri til að verja hagsmuni neytenda í þessu efni. Því studdi stofnunin og mælti eindregið með þeirri leið sem farin var til að forða félaginu frá gjaldþroti með aðkomu ríkissjóðs, Glitnis hf. og Íslandsbanka.

Inn í sjóði Sjóvá vantaði 16 milljarða króna til að gera félagið starfhæft samkvæmt skilyrðum FME. Skilanefnd Glitnis var reiðubúin til að leggja fram um 2,8 milljarða kr. til lausnar málsins og Íslandsbanki um 1,5 milljarða kr. Til þess að endurreisn Sjóvár yrði möguleg var það metið svo að ríkissjóður þyrfti að koma að málinu og leggja fram um 12 milljarða kr. fjárframlag.

Fram hefur komið að kvörtun barst ESA frá samkeppnisaðila Sjóvár og með vísan til þess og einnig til umfangs málsins taldi stofnunin rétt að kanna málið nánar. Nú er farið hylla undir lok þeirrar rannsóknar og telur fjármálaráðherra að niðurstaða gæti legið fyrir á næstu mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert