Stormur í aðsigi

Búist er við stormi við suðurströndina í fyrstu, en einnig við suðurstöndina seint í kvöld og síðan á landinu í nótt. 

Norðaustanátt,  15-23 sekúndumetrar, og snjókoma eða slydda  sunnanlands og talsverð úrkoma um tíma suðaustantil. Norðaustan 10-15 og snjókoma norðan- og norðvestanlands er líður á morguninn en annars hægari breytileg átt og él.

Snýst í vestan 15-25 m/s við suðurströndina í kvöld og gengur þessi vestanstrengur yfir landið í nótt. Frostlaust við sjóinn síðdegis en annars 1 til 7 stiga frost.

Á höfuðborgarsvæðinu verður norðaustan 13-20 og snjókoma. Mun hægari breytileg átt er líður á morguninn og él. Vestan 15-23 seint í kvöld. Frost 0 til 3 stig.

Um 200 km suðaustan af Jan Mayen er 977 mb lægð sem þokast norðaustur og grynnist smám saman. Um 500 km suðvestur af Reykjanesi er vaxandi 963 mb lægð á leið norðaustur.

Á morgun, fimmtudag, er útlit fyrir suðvestanátt, 8-15 m/s, hvassast norðvestantil. Él sunnan- og vestanlands en þurrt austanlands og frost 0 til 6 stig. Hvessir vestanlands um kvöldið með aukinni ofankomu. 

Klukkan þrjú í nótt voru austan 10-21 m/s hvassviðri suðvestantil en annars hægari. Rokhvasst var á Stórhöfða, eða 26 m/s. Slydda allra syðst en annars úrkomulítið. Kaldast var 9 stiga frost við Mývatn en hlýjast 4ja stiga hiti undir Eyjafjöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert