Formlega farið fram á endurupptöku

Gísli Tryggvason er á meðal þeirra 25 sem voru kosnir …
Gísli Tryggvason er á meðal þeirra 25 sem voru kosnir á stjórnlagaþing. mbl.is/Ernir

Gísli Tryggvason hefur afhent Hæstarétti beiðni um endurupptöku þar sem farið er fram á að dómstóllinn endurskoði ákvörðun sína um ógildingu kosninga til stjórnlagaþingsins. Hafa afrit verið send innanríkisráðuneytinu, landskjörstjórn og til þeirra sem kærðu kosninguna til stjórnlagaþings.

Gísli segir að beiðnin byggi á fyrsta tölulið 24. gr. stjórnsýslulaga. Þar segir að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef „ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.“

„Það er fyrst og fremst farið fram á endurupptöku málsins. Og ef það verður fallist á endurupptöku þá eru gerðar tvær kröfur. Í fyrsta lagi aðalkrafa um að fallið verði frá því að ógilda kosninguna í heild. Og í öðru lagi varakrafa um að látið verði sitja við að láta endurtelja. Þá erum við með ákveðna uppskrift af því hvernig má endurtelja án þess að rjúfa kosningaleynd,“ segir Gísli.

„Mér finnst mjög líklegt að þeir fallist á endurupptöku og svo vona ég að þeir fallist á aðra efniskröfuna. Og þá sérstaklega tel ég varakröfuna sterka,“ segir hann aðspurður.

Gísli er sá eini sem skrifar undir kæruna en að hans sögn var náið samráð og haft við aðra stjórnlagaþingmenn. „Það er mjög góð samvinna á bak við þetta og margir sem hafa komið að þessu,“ segir Gísli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka