Orkuveitan fjarlægist almenning

Orkuveita Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Félagsfundur Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs ályktaði í dag um málefni Orkuveitu Reykjavíkur.

Í ályktuninni er skorað á borgarfulltrúa meirihlutans að axla þá ábyrgð sem þeim hafi verið falin „í stað þess að framselja vald sitt til ákvarðana og stefnumótunar til fólks sem ekki hefur formlegt umboð frá kjósendum.“

Lýsir fundurinn því yfir að fyrirtæki sem gegni svo mikilvægu hlutverki fyrir samfélagið verði að vera í almannaeigu og verði almenningur að hafa beina aðkomu að stjórn þess og stefnumótun en borgarfulltrúar meirihlutans virðist ekki nægilega upplýstir um sögu fyrirtækisins og rætur vandans. Þeir hafi því kosið að setja „svokallaða ópólitíska fagmenn í stjórn þess,“ en þannig aukist einungis fjarlægð fyrirtækisins frá almenningi.

Á fundinum hafði Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi, framsögu um efnið: „Orkuveita Reykjavíkur - opinber almannaþjónusta eða fyrirtæki markaðslögmálanna?“

Ályktun fundarins:

„Orkuveita Reykjavíkur er forsenda búsetu á því svæði sem þjónustan nær til, enda Ísland vart byggilegt án vatns og rafmagns. Fyrirtæki sem gegnir jafn mikilvægu hlutverki fyrir samfélagið verður að vera í almannaeigu og almenningur verður að hafa beina aðkomu að stjórn þess og stefnumótun.
Vanda Orkuveitunnar má að stórum hluta rekja til þess að um langt skeið hefur það verið að fjarlægjast kjörna fulltrúa og þar með almenning. Fyrirtækið tók virkan þátt í glæfralegum viðskiptum góðærisins, stóriðjustefnunni og útrásarævintýrinu, oft án vitundar eða vilja kjósenda.
Fulltrúar meirihlutans í Borgarstjórn virðast ekki vera nægilega upplýstir um sögu fyrirtækisins og rætur vandans, enda hafa þeir kosið að setja svokallaða ópólitíska fagmenn í stjórn þess. Það verður til þess eins að auka enn á fjarlægð fyrirtækisins frá almenningi.
Félagsfundur Vinstri grænna í Reykjavík skorar á borgarfulltrúa meirihlutans að axla þá ábyrgð sem þeim hefur verið falin í stað þess að framselja vald sitt til ákvarðana og stefnumótunar til fólks sem ekki hefur formlegt umboð frá kjósendum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka