Fyrsti styrkurinn í göngubrú

Ekki þarf lengur að ganga yfir Markarfljót, þegar farið er …
Ekki þarf lengur að ganga yfir Markarfljót, þegar farið er úr Fljótshlíð, eftir að göngubrú kemur. mbl.is/Árni Sæberg

Vinir Þórsmerkur hafa áhuga á að byggja göngubrú yfir Markarfljót, úr Fljótshlíð að Húsadal. Fyrsti styrkurinn sem fæst til verksins er úr sjóði Ferðamálastofu en hann hrekkur þó skammt.

Göngubrú yfir Markarfljót myndi opna Þórsmörk enn betur en nú er. Öryggi ferðafólks myndi aukast. Það myndi komst heim þótt ár verði ófærar.

Brúin er fyrsta verkefni Vina Þórsmerkur. Hugmyndin komst á flug eftir að Þórsmerkurvegur lokaðist eftir eldgosið í Eyjafjallajökli í fyrra.

Fyrirhuguð göngubrú verður á Klöppum sem eru skammt ofan við Húsadal. Aka þarf Fljótshlíð og Emstruveg inn undir Einhyrningsflatir. Fólk kemst þangað á minni bílum en Þórsmerkurveg. Um tíu mínútna gangur er frá brúnni í Húsadal og hálftími í Langadal. 

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir áætlað að 100 metra göngubrú kosti 50 til 60 milljónir kr. Sótt hefur verið um styrki á ýmsum stöðum, meðal annars til fjárlaganefndar Alþingis. Páll segir að beiðninni hafi verið vel tekið en ekki hafi þó fengist styrkur að þessu sinni.

Fyrsti styrkurinn sem fengist hefur er frá Ferðamálastofu, úr sjóði sem styrkir úrbætur á ferðamannastöðum. Vinir Þórsmerkur fengu 4 milljóna króna styrk í brúargerðina og er það hæsti styrkurinn sem veittur er úr sjóðnum að þessu sinni.

Páll segir áfram unnið að fjármögnun brúargerðarinnar og öðrum undirbúningi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert