Kvarta undan verðmerkingum á kjötvörum

Margir hafa kvartað undan verðmerkingum á kjötvörum.
Margir hafa kvartað undan verðmerkingum á kjötvörum. mbl.is/Þorkell

Neytendasamtökin hafa undanfarið fengið margar kvartanir frá neytendum vegna skorts á verðmerkingum. Samtökin segja að neytendur eigi alltaf að geta gert sér grein fyrir því hvað varan kostar þegar þeir setja hana í vörukörfuna. Samtökin gera þá kröfu að þessu verði tafarlaust komið í lag í þeim verslunum sem ekki hafa þetta nú þegar í lagi.

Frá og með 1. mars tóku gildi nýjar reglur varðandi forverðmerkingar á kjötvörum og því er nú óheimilt að forverðmerkja kjötvörur sem seldar eru í staðlaðri þyngd, eins og flestar tegundir af pylsum, tilbúnir réttir og flestar tegundir áleggs.

Með forverðmerkingum er átt við þegar framleiðandi verðmerkir vörur sínar með smásöluverði og ákvarðar þar með smásöluálagningu. Slíkt fyrirkomulag er brot á samkeppnislögum enda eðlilegt að hver og ein verslun ákveði hversu há álagningin á að vera, enda álagning frjáls. Neytendasamtökin hafa stutt bann við forverðmerkingum, enda telja samtökin að þær dragi úr verðsamkeppni á þessum vörum og haldi uppi verði á þeim.

Þann 1. júní nk. munu sömu reglur gilda um kjötvörur sem ekki eru seldar í staðlaðri þyngd og þá verða verslanir að hafa skanna nálægt vörunum þannig að neytendur geti séð hvað kjúklingurinn eða lambalærið kostar, svo tekið sé dæmi. Að sjálfsögðu verður áfram skylt að upplýsa um kílóverð þessara vara, t.d. á verðskilti, eins og raunar gildir um aðrar vörur.

Ófullnægjandi verðmerkingar víða

Neytendasamtökin benda á að þessar breytingar hafi lengi legið ljósar fyrir og öllum verslunum verið kunnugt um þær. „Það vekur því furðu Neytendasamtakanna hvernig staðið er að málum í sumum verslunum, en samtökunum hafa borist mjög margar kvartanir um að verðmerkingar séu ófullnægjandi í mörgum verslunum. Jafnvel svo að útilokað er fyrir neytandann að átta sig á endanlegu söluverði fyrr en komið er á afgreiðslukassa. Slíkt er að sjálfsögðu brot á reglum um verðmerkingar og algerlega óásættanlegt. “


Neytendasamtökin segja að það veki sérstaka athygli að mikið ber á kvörtunum vegna þess að kjúklingar eru ekki lengur verðmerktir með einingarverði í Bónus en breyttar reglur varðandi þá vöru (og aðrar kjötvörur sem ekki eru með staðlaðri þyngd) ganga þó ekki í gildi fyrr en 1. júní eins og áður segir. Minnt er á að gert er ráð fyrir að strikamerkjalesarar verði staðsettir nálægt þeim vörum sem ekki eru seldar í staðlaðri þyngd.

Upplýsingar um verð ekkert leyndarmál

„Neytendasamtökin leggja á það ríka áherslu að verslanir fari að settum reglum um verðmerkingar og á það jafnt við um kílóverð sem einingarverð vörunnar. Neytendur eiga að sjálfsögðu að geta borið saman kílóverð ákveðinnar vöru við aðra af sömu tegund en frá öðrum framleiðanda. Einnig eiga þeir alltaf að geta gert sér grein fyrir því hvað varan kostar þegar þeir setja hana í vörukörfuna. Neytendasamtökin gera þá kröfu að þessu verði tafarlaust komið í lag í þeim verslunum sem ekki hafa þetta nú þegar í lagi. Þær mörgu kvartanir sem borist hafa til samtakanna sýna best að neytendur sætta sig ekki við þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert