Línurnar enn óskýrar

Frá fyrri fundi stjórnlagaráðs.
Frá fyrri fundi stjórnlagaráðs. mbl.is/Ómar

Meirihluti þeirra sem boðið hefur verið að taka sæti í stjórnlagaráði hittist á fundi nú um hádegið og fór yfir stöðu mála. Línur eru enn óskýrar varðandi það hvort þeir ætli sér allir að taka sæti í ráðinu, en frestur til þess að svara boðinu rennur út á þriðjudagskvöld. Líklegt er að margir nýti sér allan þann frest til þess að gera upp hug sinn.

Ómar Ragnarsson segir hvern og einn þurfa að taka ákvörðun með sínu nefi. Hann gefi sjálfur ekki upp um ákvörðun sína fyrr en hann hafi staðið formlega skil á svari til stjórnvalda. Á fundinum hafi verið farið vítt og breitt yfir sviðið og allar hliðar málsins ræddar.

Á fundinum voru 16 þeirra 25 sem boðið var að taka sæti, en tveir tóku þátt í gegnum síma. Sex forfölluðust og einn, Inga Lind Karlsdóttir, hefur þegar lýst því yfir að hún hyggist ekki taka sæti í stjórnlagaráði.

Pawel Bartoszek segist ekki ánægður með fyrirhugaða skipan mála.  „Þetta er náttúrulega engin draumalausn hjá mér, og raunar nokkuð sem ég hef verið afskaplega skeptískur á að yrði gert með þessum hætti,“ segir hann.  „Hins vegar er það þannig að þetta er, að ég hygg, sú leið sem flestir í þessum hóp vildu helst fara. Í ljósi þess finnst mér líklegt að af þessu verði.“

Hópurinn sem hittist nú hefur ekki mótað sér sameiginlega stefnu eða skoðun á málinu. Spurður að því hvernig hann meti stemninguna segist Pawel ekki skynja það að mikill meðbyr yrði með þeirri afstöðu að sú leið sem nú á að fara sé ekki boðleg.

„Ef ég hefði persónulega skynjað það pólitískt að það væri að slík stemning myndi nást myndi ég fagna því. En mér fannst ég aldrei nokkurn tímann upplifa það. Þetta er sú leið sem mér fannst að flestir hefðu viljað fara,“ segir Pawel. Hann telur að brottfall úr hópi þeirra sem náðu kjöri í kosningunum í nóvember á síðasta ári yrði mun meira yrði ákveðið að kjósa á ný.

Guðmundur Gunnarsson segist óviss um það hvort hann taki sæti í stjórnlagaráði. „Ég er ekki búinn að svara. Ég er töluvert tvístígandi, því ég er í þannig stöðu að ég get ekki losnað úr vinnu í apríl. Það er útséð með það að ég verð bundinn í vinnu allan mánuðinn. Ég gæti eitthvað sinnt þessu þá, en það væri ekki mikið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert