ASÍ og SA ætla að hittast í kvöld

Forystumenn ASÍ komu til fundar við ríkisstjórnina í ráðherrabústaðnum við …
Forystumenn ASÍ komu til fundar við ríkisstjórnina í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu fyrr í dag.. mbl.is/Golli

Stefnt er að því að samningamenn Samtaka atvinnulífsins og ASÍ hittist á fundi síðar í dag til að fara yfir næstu skref í kjaraviðræðum. Samninganefnd ASÍ kom saman kl. 16 til að ræða um hugmyndir ríkisstjórnarinnar og forystumenn SA hafa einnig farið yfir málið í sínum hópi.

Ekkert hefur verið upplýst um hvaða tillögur ríkisstjórnin kynnti fyrir aðilum vinnumarkaðarins, en á fundi í dag voru lagðar fram skriflegar tillögur í atvinnumálum, skattamálum, menntamálum og félagsmálum. Markmiðið með tillögunum er að örva fjárfestingar með beinum og óbeinum hætti, draga úr atvinnuleysi og stuðla að auknum hagvexti.

Forystumenn ASÍ og SA hafa verið ófáanlegir til að tjá sig um tillögurnar efnislega. Samninganefnd ASÍ kom saman kl. 16, en á fundinum verður farið yfir tillögurnar og áhrif þeirra. Einnig verður rætt um næstu skref í viðræðum við vinnuveitendur.

Stefnt er að því að samningamenn ASÍ og SA hittist á fundi í kvöld. Allt eins er búist við að þeir hitti síðan ríkisstjórnina aftur á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert