5,4 milljarðar til Vestfjarða

Ríkisstjórnin fundaði á Ísafirði í dag.
Ríkisstjórnin fundaði á Ísafirði í dag. mynd/bb.is

Á fundi ríkisstjórnarinnar sem haldinn var á Ísafirði í dag voru samþykkt 16 verkefni sem snúa að eflingu byggðar og atvinnusköpun í landshlutanum. Heildarkostnaður við verkefnin er áætlaður 5,4 milljarðar króna, af því er tæpur 1,5 milljarðar króna nýtt fjármagn.

Verkefnin hafa verið undirbúin í samvinnu allra ráðuneyta og í samráði við heimamenn. Verkefnin snúa m.a. að menntun, velferð, umhverfismálum og auknum framkvæmdum í vegagerð og snjóflóðavörnum.

Ætlunin er að fylgja verkefnunum eftir á samráðsvettvangi stjórnvalda og sveitarfélaga með það að markmiði að ábyrgð þeirra færist í auknum mæli heim í hérað. Sú vinna tengist gerð sóknaráætlana landshluta og markmiðum sem sett eru fram í stefnumarkandi skjali stjórnvalda, Ísland 2020.

Fyrir ríkisstjórnarfundinn heimsótti ríkistjórnin Háskólasetur Vestfjarða og kynnti sér starfsemi mennta-, atvinnuþróunar- og rannsóknastofnana á svæðinu. Þá fundaði ríkisstjórnin jafnframt með sveitarstjórnarfólki af svæðinu þar sem verkefnin voru kynnt og rædd.

Orkumál, flutningskostnaður og samgöngumál voru mikið rædd á fundinum. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir, að með fundi sínum og þeim aðgerðum sem þar voru kynntar vilji stjórnvöld senda skýr skilaboð um að byggð á Vestfjörðum verði varin.

Tilkynning forsætisráðuneytisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert