Getum ekki staðið í logni og horft á höfnina lokaða

Landeyjahöfn.
Landeyjahöfn. mbl.is/RAX

„Við getum ekki staðið hér í logni og horft á höfnina okkar lokaða vegna þess að Herjólfur ristir of mikið," sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Hann hefur sent Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra, og Hermanni Guðjónssyni, siglingamálastjóra, bréf þar sem farið er fram á að sérleyfi Herjólfs til siglinga í Landeyjahöfn verði aflétt og að smærri skipum verði gefinn kostur á að sigla milli hafnarinnar og Vestmannaeyja með farþega.

Elliði segir í bréfinu, að miðað við ölduspá sé útlit fyrir að enn verði nokkur dráttur á að dýpi verði nægilegt fyrir Herjólf enda risti ferjan meira en æskilegt sé. Aðrir bátar, sem rista minna, geti hins vegar vel notað höfnina. „Ölduduflið sýnir núna að ölduhæðin í höfninni er 1,5 metrar og hún er samt lokuð," sagði Elliði.

Elliði sagði við mbl.is, að ferðaþjónustufyrirtæki hefðu lýst áhuga á að sinna  þjónustu af þessari tagi. Farþegabátar eins og Viking, sem notaður er til að sigla með ferðamenn umhverfis Vestmannaeyjar, væru t.d. 12-15 mínútur að sigla milli lands og Eyja.

Í bréfinu segir Elliði, að homandi helgi sé mikilvæg fyrir ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum og því óski hann eindregið eftir því að hratt verði brugðist við þessari ósk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert